Erlent

Kona á sjö­tugs­aldri fyrst til þess að nýta sér ný­sam­þykkt lög um líknar­dráp

Sylvía Hall skrifar
Löggjöfin tók gildi í Victoriuríki í júní. Tvö ríki til viðbótar, Vestur-Ástralía og Queensland, íhuga nú samskonar löggjöf.
Löggjöfin tók gildi í Victoriuríki í júní. Tvö ríki til viðbótar, Vestur-Ástralía og Queensland, íhuga nú samskonar löggjöf. Vísir/Getty
Hin 61 árs gamla Kerry Robertson lést á hjúkrunarheimili í Victoriuríki í Ástralíu í júlí. Varð hún þar með sú fyrsta til þess að nýta sér nýlega samþykkt, en jafnframt umdeild, lög um líknardráp sem eru einungis í gildi í ríkinu. BBC greinir frá. 

Robertson hafði glímt við brjóstakrabbamein í níu ár en á síðustu árum hafði það dreift sér í bein, lungu, heila og lifur. Í mars var svo ákveðið hætta geisla- og lyfjameðferð eftir að sársaukinn var „óbærilegur“ að sögn fjölskyldu hennar. Hún sótti því um leyfi til líknardauða og var beiðni hennar samþykkt eftir 26 daga samþykktarferli.

Fjölskylda Robertson segir hana hafa verið staðráðna í að vilja deyja. Með þessum hætti hafi hún fengið að deyja með reisn en hún dó umvafin ættingjum og vinum á meðan þau hlustuðu á David Bowie.

Löggjöfin tók gildi í júní og geta þeir sjúklingar sem uppfylla ákveðin skilyrði fengið aðgang að þeim lyfjum sem til þarf. Tvö ríki til viðbótar, Vestur-Ástralía og Queensland, íhuga nú samskonar löggjöf.

Lögin eru hugsuð fyrir fólk sem glímir við mikinn sársauka en auk þess þurfa sjúklingar að sækja þrisvar um leyfi til sérmenntaðra lækna. Þá þurfa sjúklingar að vera í það minnsta átján ára gamlir og lífslíkur þeirra skemmri en sex mánuðir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.