Valur valtaði yfir Fylki og hrifsaði toppsæti Pepsi Max deildarinnar aftur af Breiðabliki í lokaleik sjöttu umferðar.
Hlín Eiríksdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir komu Valskonum í þægilega stöðu með sitt hvoru markinu snemma leiks. Þá tók Elín Metta Jensen leikinn yfir.
Fyrsta mark Elínar Mettu kom á 43. mínútu og var staðan 3-0 í hálfleik. Hún lék Fylkiskonur mjög grátt í seinni hálfleik, skoraði þar þrjú mörk og átti því í heildina fjögur af sex mörkum Vals í leiknum.
Valur fer því sem áður segir aftur á topp deildarinnar en bæði Valskonur og Breiðablik eru með fullt hús stiga. Valskonur eru hins vegar með betri markatölu, eftir þennan sigur er markatala þeirra 23-3 eftir sex umferðir.
Upplýsingar um úrslit og gang mála eru fengnar frá Fótbolta.net.
