Erlent

Sjötíu nýir gróðureldar í Ástralíu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Hiti fór yfir fjörutíu stig í öllum ríkjum Ástralíu í dag. Hamfarirnar í landinu ætla engan enda að taka og kviknuðu sjötíu nýir gróðureldar í Viktoríu-ríki í dag. Ástandið er verst þar og var ferðamönnum og íbúum East Gippsland í ríkinu gert að yfirgefa svæðið í dag.

Andrew Crisp, yfirmaður hamfaravarna ríkisins, segir að eldarnir séu óútreknanlegir. Fólk þurfi að fylgjast afar vel með nýjum upplýsingum. „Þetta er hættulegur dagur hér í Viktoríu, þetta sjáum við ekki oft. Það er afar þurt og það verður mikill hiti, mikið rok. Fólk ætti að drífa sig á brott samstundis,“ sagði Crisp.

Alls hafa eldarnir brennt um fimmtíu þúsund ferkílómetra svæði. Það samsvarar nærri hálfu Íslandi. Níu hafa farist og nærri þúsund heimili brunnið til grunna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×