Erlent

Mannskæð flugskeytaárás í Jemen

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Eftirmálar árásarinnar.
Eftirmálar árásarinnar. Vísir/AP

Minnst fimm eru látin eftir flugskeytaárás í Jemen í dag. Jemensk stjórnvöld telja uppreisnarsamtök Húta bera ábyrgð á árásinni.

Árásin átti sér stað í bænum al-Dhalea, í lok útskriftarathafnar á vegum hersveita Öryggisbeltisins (e. security belt), sem eru hernaðarsamtök studd af Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hersveitirnar hafa barist við hlið hersveita Jemen í baráttunni við Húta.

Hútar hafa sjálfir ekki lýst yfir ábyrgð á árásunum, en þeir stóðu á bak við keimlíka árás á aðra útskriftarathöfn af sama meiði í ágúst á þessu ári. Þar létust á fjórða tug fólks.

Auk þeirra fimm sem létust eru níu særð, eftir að loftskeytið hæfði áhorfendapall sem stóð nálægt hersýningunni.

Áætlað er að tíu þúsund til sjötíu þúsund hafi tapað lífi í skæruhernaði milli Húta, sem studdir eru af Íran, og þeirra sem njóta stuðnings Sádiarabískra og Jemenskra stjórnvalda. Þar af er talið að tveir þriðju hafi týnt lífi í loftárásum Sáda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×