Erlent

Einn lög­reglu­maður og nokkrir al­mennir borgarar látnir í skot­á­rás í Jer­s­ey

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Nokkrir eru látnir eftir skotárás í Jersey borg.
Nokkrir eru látnir eftir skotárás í Jersey borg. epa/ JUSTIN LANE

Lögreglumaður var einn sex einstaklinga sem voru skotin til bana í Jersey borg í Bandaríkjunum í harkalegum skotbardaga. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Tveir lögreglumenn til viðbótar særðust í skotbardaganum sem hófst eftir að árásarmennirnir byrgðu sig inni í búð. Nokkrir skólar og fyrirtæki lokuðu og voru í viðbragðsstöðu vegna atviksins.

Enn er ekki vitað hver kveikjan var að árásinni en yfirvöld hafa greint frá því að þau telji árásina ekki vera hryðjuverk. Þá nafngreindu yfirvöld lögreglumanninn sem lést en það var Joseph Seals, 39 ára gamall, og var hann hluti af verkefnahópi sem vann að því að uppræta ólögleg vopn í New Jersey fylki.

Alríkislögreglan og sérsveitin voru kallaðar á vettvang.EPA/Justin Lane

Í samtali við fréttamenn sagði Mike Kelly, lögreglustjóri í Jersey borg, að Seals hafi verið „í forystu þegar kom að því að uppræta ólögleg vopn af götunum.“

Kelly greindi frá því að skot hafi fyrst hlaupið af í kirkjugarði í hverfinu rétt eftir 12 á hádegi að staðartíma. Þá er talið að Seals hafi verið myrtur þegar hann reyndi að nálgast hina grunuðu.

Hinir grunuðu, sem eru tveir, flúðu vettvanginn á pallbíl og leituðu skjóls í nálægri matvöruverslun þar sem þeir héldu áfram að hleypa skotum af að lögreglu.

epa/justin lane

Tugir vopnaðra lögreglumanna, þar á meðal sérsveitarlögreglumenn og lögreglumenn Alríkislögreglunnar, fóru á staðinn en fimm létust í búðinni og er talið að tveir hinna látnu séu árásarmennirnir.

Þá greindi lögreglan frá því að hinir grunuðu hafi verið vopnaðir aflmiklum rifflum og hafi skotið hundruðum skota á meðan á skotbardaganum stóð. Kelly sagði að talið væri að þrír hafi verið myrtir af hinum grunuðu inni í búðinni en hann tók það sérstaklega fram að rannsóknin væri enn á frumstigi og enn ætti margt eftir að koma í ljós.

Minnst einn komst lífs af innan úr búðinni og er hann nú á sjúkrahúsi í aðhlynningu og eru sprengjusérfræðingar að rannsaka bílinn sem hinir grunuðu notuðu.

Fréttin var uppfærð kl. 02:53.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×