Erlent

22 ára karlmaður handtekinn vegna morðanna á Grænlandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá bænum Maniitsoq. Bærinn er á eyju við vesturströnd Grænlands um 150 kílómetra norðan við Nuuk.
Frá bænum Maniitsoq. Bærinn er á eyju við vesturströnd Grænlands um 150 kílómetra norðan við Nuuk. Mynd/Visit Greenland.

Lögreglan í Maniitsoq á Grænlandi hefur handtekið 22 ára karlmann og er hann grunaður um að hafa myrt karl og konu, sem fundust látin í íbúð í bænum í fyrrinótt. Maðurinn verður leiddur fyrir dómara síðar í dag þar sem lögreglan mun fara fram á gæsluvarðhaldsúrskurð. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem grænlenska lögreglan sendi frá sér í dag. 

Eins og fram kom í frétt Vísis í gærkvöldi fundust karlmaður á sjötugsaldri og liðlega fimmtug kona látin í íbúðinni. Báru ummerki með sér að banamein þeirra hefði verið hnífsstungur. 

Þrír tæknimenn frá dönsku ríkislögreglunni hafa verið kallaðir til frá Kaupmannahöfn til að aðstoða lögregluna á Grænlandi við rannsókn málsins. Lögreglumenn frá Nuuk eru einnig í Maniitsoq til að vinna að rannsókn þess. 

Í frétt Stöðvar 2 fyrir þremur árum um ofbeldisglæpi á Grænlandi kom fram að morðtíðni þar væri hærri en á hinum Norðurlöndunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×