Erlent

Kveiktu í líki konunnar eftir hóp­nauðgun

Eiður Þór Árnason skrifar
Lögreglumenn á vettvangi þar sem brennt lík konunnar fannst í Hyderabad.
Lögreglumenn á vettvangi þar sem brennt lík konunnar fannst í Hyderabad. Vísir/AP
Fjórir menn játuðu í gær á sig að hafa hópnauðgað og myrt 27 ára gamla konu í suðurhluta Indlands. Brennt lík hennar fannst í Hyderabad, höfuðborg indverska fylkisins Andhra Pradesh, og eru mennirnir taldir hafa kveikt í konunni eftir að þeir brutu á henni.

Konan var dýralæknir og er atvikið talið hafa átt sér stað síðasta miðvikudag þegar hún hvarf skyndilega. Vegfarandi fann síðar illa brunnið lík hennar undir brú í útjaðri borgarinnar. Lögreglan greindi frá því síðasta föstudag að fjórir menn hafi verið handteknir grunaðir um verknaðinn.

„Þeir fluttu hana með flutningabíl þangað sem þeir komu henni fyrir undir brú, helltu dísilolíu og bensíni á líkama hennar og brenndu hana,“ er haft eftir Venkatesh, lögregluforingja á Shamshabad lögreglustöðinni í Hyderabad, í umfjöllun CNN.

Að sögn lögreglu er talið að mennirnir hafa boðist til þess að hjálpa konunni að gera við sprungið mótorhjóladekk áður en þeir fluttu hana á afskekktan stað þar sem þeir frömdu verknaðinn.

Í síðasta símtali konunnar sagði hún systur sinni frá vandamálinu með hjólið og greindi frá því að hún væri hrædd vitandi að fólk sæti í flutningabíl og starði á hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×