Erlent

Segja Rússa hafa neitað að handtaka aðskilnaðarsinna vegna MH17

Samúel Karl Ólason skrifar
MH17 var skotin niður yfir austurhluta Úkraínu í júlí 2014.
MH17 var skotin niður yfir austurhluta Úkraínu í júlí 2014. Vísir/Getty
Yfirvöld í Rússlandi urðu ekki við beiðni hollenskra saksóknara um að úkraínskur maður sem er grunaður um aðild að því að flugvél Malaysia Airlines, MH17, var skotin niður yfir Úkraínu, yrði handtekinn og framseldur til Hollands. Hollendingar segja neitunina brot á Evrópulögum.

Maðurinn sem saksóknararnir vilja koma höndum yfir heitir Volodymyr Tsemakh. Hann er einn af fjórum aðilum sem Hollendingar vilja koma höndum yfir. Hinir þrír eru rússneskir. Tsemakh var einn af leiðtogum aðskilnaðarsinna en hann var handsamaður af hermönnum Úkraínu. Hann var svo sendur til Rússlands í september í fangaskiptum við Rússa.



MH17 var skotin niður yfir austurhluta Úkraínu í júlí 2014. Verið var að fljúga flugvélinni frá Amsterdam til Kuala Lumpur þegar hún var skotin niður yfir yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna sem Rússar styðja. Alls 283 farþegar og fimmtán í áhöfn dóu en tveir þriðju þeirra voru frá Hollandi. Hollenskir saksóknara hafa því stýrt rannsókn vegna atviksins.

Meðlimir nefndarinnar fluttu brak flugvélarinnar til Hollands þar sem það var sett saman á nýjan leik og komust þeir að þeirri niðurstöðu að hún hefði verið skotin niður með BUK-eldflaugakerfi, sem framleitt er af Rússum. Þeir sögðu kerfið hafa verið flutt til Úkraínu skömmu áður en flugvélin var skotin niður, frá herstöð í Rússlandi.

Sjá einnig: Segja aðskilnaðarsinna hafa tekið við skipunum frá Rússum



Í yfirlýsingu frá rannsóknarnefndinni, sem Reuters segir frá, segir að Tsemakh hafi verið í Rússlandi og yfirvöld þar hafi neitað að handtaka hann að beiðni Hollendinga og leyft honum að fara frá Rússlandi, þrátt fyrir að Rússum hafi verið skylt að gera það vegna Evrópulaga.

Yfirvöld Rússlands framselja aldrei eigin ríkisborgara, samkvæmt frétt Reuters, en þar sem Tsemakh er úkraínskur hefði það ekki átt að stöðva Rússa.

Hollendingar fengu tilkynningu frá Rússum þann 19. nóvember þar sem fram kom að ekki hefði verið mögulegt að handtaka Tsemakh, þar sem yfirvöld viti ekki hvar hann sé niðurkominn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×