Enski boltinn

Tölfræðimolinn sem reiðir stuðningsmenn Everton notuðu mest til að drulla yfir Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hvarf í seinni hálfleiknum í gær.
Gylfi Þór Sigurðsson hvarf í seinni hálfleiknum í gær. Getty/Laurence Griffiths
Gylfi Þór Sigurðsson átti ekki góðan leik í gærkvöldi þegar Everton tapaði 5-2 fyrir nágrönnum sínum í Liverpool. Hann var síðan miðpunkturinn í gagnrýni öskureiðra stuðningsmanna Everton liðsins eftir leikinn.

Enskir blaðamenn töluðu um að Gylfi hafi hreinlega týnst á löngum köflum í leiknum og það var heldur ekki gott fyrir hans framlag í sóknarleiknum að sjá íslenska landsliðsmanninn spila lengstum sem afturliggjandi miðjumaður. Þar nýtast hans styrkleikar ekki best enda Gylfi bestur framarlega á miðjunni að búa eitthvað til fyrir liðið sitt.

Stuðningsmenn Everton voru náttúrulega grjótfúlir með niðurstöðu leiksins enda var þetta einn ójafnasti leikur Liverpool og Everton í langan tíma. Liverpool komst í 2-0, 4-1 og vann síðan á endanum 5-2 sigur.

Gylfi bar fyrirliðabandið hjá Everton og var eftir leikinn skotspónn hjá reiðum stuðningsmönnum Everton sem hraunuðu margir yfir íslenska landsliðsmanninn á samfélagsmiðlum.

Tölfræði Gylfa í leiknum var ekki merkileg eins og sést hér fyrir neðan og auðvitað láta menn alltaf verðmiðann fylgja með.







Gylfi hvarf hreinlega í seinni hálfleiknum þegar Everton hefði átt að vera reyna að koma sér aftur inn í leikinn, 4-2 undir.

Það var því einkum ein ákveðin tölfræði sem fór sérstaklega fyrir brjóstið á ósáttum Everton stuðningsmönnum.

Gylfi náði nefnilega ekki að snerta boltann í tæplega tuttugu mínútur þrátt fyrir að spila inn á miðjunni. Hann kom ekki við boltann frá 62. til 79. mínútu leiksins.





Það er með réttu hægt að ráðleggja Gylfa að vera ekki að skoða mikið samfélagsmiðla eftir þennan leik í gær. Það má líka búast við breytingum hjá Everton liðinu í framhaldinu enda staðan orðin slæm á botni deildarinnar. Southampton vann sinn leik og því er Everton komið niður í fallsæti.

Knattspyrnustjórinn Marco Silva verður væntanlega rekinn á næstunni og nýr stjóri gæti komið inn með breyttar áherslur. Hvernig Gylfi kemur út út slíkum breytingum verður fróðlegt að sjá.

Hér fyrir neðan má sjá nokkra af umræddum reiðu stuðningsmönnum Everton sem eru sannfærðir um að Gylfi sé einn af aðalvandamálum Everton liðsins í dag.






















Fleiri fréttir

Sjá meira


×