Erlent

Leið­togi franskra vinstri öfga­manna dæmdur fyrir að ógna lög­reglu

Atli Ísleifsson skrifar
Jean-Luc Mélenchon bauð sig fram til forseta árið 2017 og hlaut þá 19,5 prósent atkvæða í fyrri umferð kosninganna.
Jean-Luc Mélenchon bauð sig fram til forseta árið 2017 og hlaut þá 19,5 prósent atkvæða í fyrri umferð kosninganna. Getty

Dómstóll í Frakklandi hefur dæmt Jean-Luc Mélenchon, leiðtoga franskra öfgavinstrimanna, í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að ógna fulltrúum yfirvalda sem rannsaka styrktargreiðslur til hans. Þá var hann einnig dæmdur til átta þúsund evra sektargreiðslu, um milljón íslenskra króna.

Saksóknarar gerðu húsleit á heimili og skrifstofu Mélenchon í október 2018. Náðist á myndband þar sem Mélenchon hrópaði „Ég er lýðveldið!“ að lögreglumanni og ýtti við honum. Reyndi Mélenchon ásamt samstarfsmönnum að brjóta sér leið inn í höfuðstöðvar flokks síns þar sem fulltrúar yfirvalda voru að störfum.

Mélenchon leiðir flokkinn Óbeygt Frakkland og styður aðgerðir mótmælenda sem kenna sig við gul vesti. Hann bauð sig fram til forseta árið 2017 og hlaut þá 19,5 prósent atkvæða í fyrri umferð kosninganna. Emmanuel Macron hafði svo betur gegn Marine Le Pen í síðari umferð forsetakosninganna.

Húsleit var gerð á heimili og skrifstofu Mélenchon vegna gruns um flokkurinn hafi misfarið með Evrópusambandsfé þegar kom að ráðningu aðstoðarmanna.

Mélenchon segir pólitískar ástæður liggja að baki rannsókninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×