Erlent

Corbyn kynnir róttækustu stefnuskrá flokksins í langan tíma

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Corbyn var í stuði í Birmingham.
Corbyn var í stuði í Birmingham. Nordicphotos/Getty
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, kynnti stefnuskrá fyrir þingkosningarnar sem fram fara þann 12. desember. Er hún sögð mjög róttæk, jafnvel róttækari en stefnuskráin frá 2017.

„Þessi stefnuskrá inniheldur mál sem fólkið vill en stjórnmálakerfið hefur komið í veg fyrir í áratugi,“ sagði Corbyn vígreifur á fundi í Birmingham-háskóla. Stefnuskráin ber heitið „Það er kominn tími á raunverulegar breytingar“.

Eins og við var að búast er gert ráð fyrir stórauknum fjárútlátum hins opinbera til ýmissa málaflokka, svo sem heilbrigðis- og skólakerfisins. Byggja á upp innviði og hækka laun opinberra starfsmanna um 5 prósent.

Þá er gert ráð fyrir þjóðnýtingu á ýmsum sviðum, svo sem í samgöngum, póstkerfinu og fráveitukerfum. Síma- og netfyrirtæki yrðu þjóðnýtt og það tryggt að allir Bretar hefðu aðgang að netinu.

Til að fjármagna útgjöldin hyggst Corbyn skattleggja hina ríku, sem hafa 80 þúsund pund í tekjur á ári, eða tæplega 13 milljónir króna. Myndu því 95 prósent Breta ekki finna fyrir aukinni skattheimtu. Þá verða skattar hækkaðir verulega á fyrirtæki, sérstaklega mengandi stóriðnað, svo sem olíu- og gasfyrirtæki, vegna loftslagsvárinnar.




Tengdar fréttir

Óljóst hvor stóð sig betur í fyrstu kappræðunum

Boris Johnson, leiðtogi Íhaldsflokksins, og Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins tókust á í kvöld í fyrstu kappræðunum í aðdraganda bresku þingkosningana. Álitsgjafar segja óljóst hvor þeirra hafi haft betur og almenningur virðist sammála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×