Erlent

Íhaldsflokkurinn í sterkri stöðu fyrir kosningarnar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Boris Johnson og Jeremy Corbyn tókust á í gærkvöldi
Boris Johnson og Jeremy Corbyn tókust á í gærkvöldi AP/ITV

Íhaldsflokkurinn er með gott forskot nú þegar það styttist í þingkosningar á Bretlandi. Leiðtogar mættust í kappræðum í gærkvöldi.

Um þrjár vikur eru nú þar til Bretar kjósa sér nýtt þing. Boðað var til kosninga í október eftir að ekki tókst að halda í settan útgöngudag úr Evrópusambandinu.

Brexit var því efst á baugi þegar leiðtogar Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins mættust í kappræðum í gærkvöldi. Íhaldsmaðurinn Boris Johnson sagði fjölda styðja útgöngusamning sinn og sagði stefnu Corbyns of óljósa.

„Herra Corbyn lofar því að semja upp á nýtt og setja samninginn svo í þjóðaratkvæðagreiðslu. En við vitum ekki, og ég hef spurt að þessu áður, hvort herra Corbyn myndi beita sér fyrir samþykkt samningsins eða að hætt verði við útgöngu.“

Corbyn svaraði og sagði: „Við munum semja upp á nýtt og stilla samningnum upp á móti áframhaldandi veru í ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ríkisstjórn mín mun einfaldlega framfylgja vilja þjóðarinnar. Það mun ég gera.“

Aðrir leiðtogar fengu ekki boðskort í kappræðurnar. Jo Swinson, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, sagði að hún hefði viljað taka þátt og gagnrýndi frammistöðu fyrrnefndra tveggja. „Það væri ósköp skiljanlegt ef áhorfendum finnst þeir eiga betra skilið en það sem sást í kappræðunum“

Íhaldsflokkurinn mælist enn stærstur með 42 prósent fylgi. Verkamannaflokkurinn er öllu minni, 29 prósent, en báðir flokkar hafa verið á uppleið frá því boðað var til kosninga í október. Sú fylgisaukning hefur verið á kostnað Frjálslyndra Demókrata og Brexitflokksins.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.