Erlent

Íhaldsflokkurinn í sterkri stöðu fyrir kosningarnar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Boris Johnson og Jeremy Corbyn tókust á í gærkvöldi
Boris Johnson og Jeremy Corbyn tókust á í gærkvöldi AP/ITV
Íhaldsflokkurinn er með gott forskot nú þegar það styttist í þingkosningar á Bretlandi. Leiðtogar mættust í kappræðum í gærkvöldi.

Um þrjár vikur eru nú þar til Bretar kjósa sér nýtt þing. Boðað var til kosninga í október eftir að ekki tókst að halda í settan útgöngudag úr Evrópusambandinu.

Brexit var því efst á baugi þegar leiðtogar Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins mættust í kappræðum í gærkvöldi. Íhaldsmaðurinn Boris Johnson sagði fjölda styðja útgöngusamning sinn og sagði stefnu Corbyns of óljósa.

„Herra Corbyn lofar því að semja upp á nýtt og setja samninginn svo í þjóðaratkvæðagreiðslu. En við vitum ekki, og ég hef spurt að þessu áður, hvort herra Corbyn myndi beita sér fyrir samþykkt samningsins eða að hætt verði við útgöngu.“

Corbyn svaraði og sagði: „Við munum semja upp á nýtt og stilla samningnum upp á móti áframhaldandi veru í ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ríkisstjórn mín mun einfaldlega framfylgja vilja þjóðarinnar. Það mun ég gera.“

Aðrir leiðtogar fengu ekki boðskort í kappræðurnar. Jo Swinson, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, sagði að hún hefði viljað taka þátt og gagnrýndi frammistöðu fyrrnefndra tveggja. „Það væri ósköp skiljanlegt ef áhorfendum finnst þeir eiga betra skilið en það sem sást í kappræðunum“

Íhaldsflokkurinn mælist enn stærstur með 42 prósent fylgi. Verkamannaflokkurinn er öllu minni, 29 prósent, en báðir flokkar hafa verið á uppleið frá því boðað var til kosninga í október. Sú fylgisaukning hefur verið á kostnað Frjálslyndra Demókrata og Brexitflokksins.

 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.