Enski boltinn

Guardiola: Bayern veit að ég mun virða samning minn við City

Anton Ingi Leifsson skrifar
Pep Guardiola þakklátur.
Pep Guardiola þakklátur. vísir/getty
Pep Guardiola, stjóri Manchester City, segir að hann hafi verið ótrúlega ánægður hjá Bayern Munchen en hann muni klára samning sinn hjá City.

Guardiola hefur verið orðaður við endurkomu til Þýskalands eftir að Niko Kovac var rekinn úr starfi á Allianz Arena fyrr í mánuðinum.

Spánverjinn vann hjá Bayern frá 2013 til 2016 en hann er með samning við Englandsmeistara síðustu tveggja ára til 2021 og hann mun virða hann.

„Þetta gæti verið þannig að einn maður hafi byrjað orðróminn og svo byrji fólk að tala um þetta,“ sagði Guardiola um Bæjara-orðróminn.







„Mér líkar mjög vel við fólkið frá Bayern. ég var ótrúlega ánægður þar en þeir vita að ég er maður sem virði það sem ég skrifa undir.“

„Í fótboltanum getur þú verið rekinn ef þú nærð ekki í úrslit en í þessari stöðu, þegar Man. City vil hafa mig áfram, þá vil ég einnig vera áfram,“ sagði Guardiola.

City mætir Chelsea í stórleik enska boltans á morgun er liðin mætast á Etihad-leikvanginum. Flautað verður til leiks klukkan 17.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×