Erlent

Yfir­maður banda­ríska sjó­hersins rekinn

Atli Ísleifsson skrifar
Richard Spencer var yfirmaður bandaríska sjóhersins.
Richard Spencer var yfirmaður bandaríska sjóhersins. AP
Yfirmanni bandaríska sjóhersins, Richard Spencer, hefur verið vikið frá störfum af Mark Esper varnarmálaráðherra vegna þess hvernig hann tók á málum sérsveitarhermanns sem var lækkaður í tign fyrir brot í starfi.

Mál Edward Gallaghers sérsveitarmanns hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum en upphaflega var hann ákærður af herdómstól fyrir að stinga sautján ára gamlan óvopnaðan ungling sem grunaður var um að vera meðlimur í ISIS-samtökunum, til bana, á meðan drengurinn var í varðhaldi.

Þá var hann einnig sakaður um að skjóta fólk af handahófi á götum úti í Írak. Hann var þó sýknaður af þessum ásökunum en sakfelldur fyrir að láta taka af sér myndir með líkum stríðsfanga.

Fyrir þá sök hugðist yfirmaður sjóhersins lækka Edwards í tign og reka hann úr sérsveitinni, Navy Seals. Það líkaði Trump forseta svo illa og eftir nokkrar deildur hefur nú Spencer sjálfur verið rekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×