Fótbolti

Sportpakkinn: Gæti kostað 70 milljónir að gera Laugardalsvöll leikfæran fyrir Rúmeníuleikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Laugardalsvöllur verður tilkynntur sem leikstaður fyrir umspilsleikinn gegn Rúmeníu.
Laugardalsvöllur verður tilkynntur sem leikstaður fyrir umspilsleikinn gegn Rúmeníu. vísir/getty
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að allt verði gert til að leikur Íslands og Rúmeníu í undanúrslitum umspils um sæti á EM 2020 fari fram á Laugardalsvelli.

„Þetta er ekki bara undir okkur komið. Við reynum að undirbúa þetta eins vel og við mögulega getum,“ sagði Guðni í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum.

„Á endanum á tíðarfarið og veðrið eftir að skera úr um það hvort þetta takist. En við verðum að vera bjartsýn og ætlum okkur að ná að spila þennan leik hér á heimavelli. Það má meta það sem helmingslíkur á að það takist.“

Kostnaður KSÍ við að gera völlinn leikfæran gæti numið allt að 70 milljónum króna.

„Þetta gæti hlaupið á þessum upphæðum en vonandi verður þetta ekki svona mikið,“ sagði Guðni.

Hann segir að KSÍ muni tilkynna Laugardalsvöll sem leikstað fyrir leikinn gegn Rúmeníu 26. mars á næsta ári. Fresturinn til að tilkynna leikstað rennur út 20. desember.

En hvað gerist ef Laugardalsvöllur verður ekki leikfær?

„Þá verðum við að spila leikinn erlendis. Við erum að athuga með það og það kemur til greina að fara með leikinn til Danmerkur eða Svíþjóðar. Við þurfum að tilkynna plan B. UEFA mun fylgjast grannt með því hvernig ástand vallarins verður,“ sagði Guðni.

Fréttina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Ætla að spila umspilsleikinn á Laugardalsvelli
 


Tengdar fréttir

Rúmenar þjálfaralausir

Rúmenía er án þjálfara þegar fjórir mánuðir eru í leikinn mikilvæga gegn Íslandi í EM-umspilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×