Fótbolti

Sportpakkinn: Fá góða hjálp frá Lars og Svíum við undirbúninginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik Hamrén, Freyr og Lars Eriksson.
Erik Hamrén, Freyr og Lars Eriksson. vísir/getty

Ísland mætir Rúmeníu í undanúrslitum umspils um sæti á EM 2020. Leikurinn fer fram 26. mars á næsta ári.

„Þeir eru lið sem er á mikilli uppleið núna. Það hafa orðið kynslóðaskipti í liðinu. U-21 árs liðið þeirra fór í undanúrslit á EM í sumar sem það vann m.a. England og Króatíu. Ég var á mótinu, sá þá spila og hreifst mikið af þeim,“ sagði Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum.

Rúmenar eru í leit að landsliðsþjálfara eftir að Cosmin Contra var rekinn í gær.

„Þeir eru þjálfaralausir og það er talað um að Gheorghe Hagi eða Dan Petrescu taki við. Það getur oft veitt liðum innblástur en líka verið erfitt í fyrstu leikjunum. Það eru plúsar og mínusar við það en þetta flækir aðeins undirbúning okkar,“ sagði Freyr.

Svíþjóð og Noregur, sem Lars Lagerbäck þjálfar, voru með Rúmeníu í undankeppni EM 2020. Freyr segir að Íslendingar fái hjálp frá frændum sínum.

„Við erum hvergi bangnir og erum strax byrjaðir að undirbúa okkur í samvinnu við vini okkar í Noregi og Svíþjóð. Við fáum þeirra skýrslur.“

Ísland fékk heimaleik í undanúrslitunum en ekki í úrslitum umspilsins.

„Maður vonaðist til að fá tvo heimaleiki en það fór ekki svo. Við þurfum bara að takast á við það. Þetta er ótrúlega spennandi. Þetta eru tveir úrslitaleikir og öll þjóðin mun fylgjast með. Ég upplifi strákana þannig að þeir þrífist best í því umhverfi þegar mikið er undir,“ sagði Freyr.

Ákveða þarf leikstað í umspilinu fyrir 20. desember. Þjálfarar og leikmenn vilja spila á Laugardalsvellinum.

„Við höfum sagt okkur skoðun. Við viljum gera allt til að spila hér. Okkur líður vel heima og aðrar þjóðir hræðast að koma hingað. En maður finnur það alveg í þjóðfélaginu að fólk er tilbúið að fara til Kaupmannahafnar og halda gott partí,“ sagði Freyr.

Klippa: Sportpakkinn: Rúmenar sýnd veiði en ekki gefin
 


Tengdar fréttir

Rúmenar þjálfaralausir

Rúmenía er án þjálfara þegar fjórir mánuðir eru í leikinn mikilvæga gegn Íslandi í EM-umspilinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.