Erlent

82 ára vöðvatröll tók innbrotsþjóf í bakaríið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það er fátt sem Willie Murphy kallar ömmu sína.
Það er fátt sem Willie Murphy kallar ömmu sína. Vísir
Það fór illa fyrir innbrotsþjófi sem braust inn á heimili hinnar 82 ára Willie Murphy í Rochester í Bandaríkjunum í síðustu viku. Murphy er mikill líkamsræktarfrömuður og pakkaði innbrotsþjófinum einfaldlega saman.

Það var síðla kvölds síðastliðinn fimmtudag er Murphy heyrði einhvern kalla fyrir utan heimili hennar. Áður en hún vissi af var innbrotsþjófurinn komin inn til hennar.

Því miður fyrir innbrotsþjófinn hefur Murphy unnið til verðlauna í lyftingum og lyftir hún að sögn Washington Post 100 kílóum í réttstöðulyftu.

„Hann valdi vitlaust hús til þess að brjótast inn í,“ hefur Post eftir Murphy en í myndbandinu sem fylgir má heyra hana lýsa átökunum í smáatriðum.

Braut hún stól á baki innbrotsþjófsins, hélt honum niðri, hellti sjampói yfir hann og slóst við hann vopnuð kústi.

„Ég bý ein og er gömul en veistu hvað, ég þrælseig,“ hefur Post eftir Murphy.

Lögreglan í Rochester segir að innbrotsþjófurinn hafi verið ölvaður er hann braust inn. Hann var handtekinn á staðnum og færður í fangaklefa.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Murphy kemst í fréttirnar. Hún hóf lyftingar þegar hún var á áttræðisaldri til þess að halda heilsunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×