Innlent

Stjórnarmaður í SFS dæmdur fyrir skattalagabrot og peningaþvætti

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Héraðsdómur Vesturlands er í Borgarnesi.
Héraðsdómur Vesturlands er í Borgarnesi. Vísir/Egill
Ólafur Rögnvaldsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihúss Hellissands, var á dögunum dæmdur í Héraðsdómi Vesturlands í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiri háttar brot gegn bókhaldslögum, meiri háttar skattalagabrot og peningaþvætti.Þá er Ólafi, sem er einnig stjórnarmaður í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), gert að greiða rúmlega 36 milljóna króna sekt í ríkissjóð en hann játaði brot sín skýlaust fyrir dómi.Samkvæmt dóminum rangfærði Ólafur bókhald hraðfrystihússins með því að gefa út ranga kreditreikninga á hendur félaginu Sæmark-Sjávarafurðir í þeim tilgangi að taka fjármuni í eigin þágu.Á árunum 2013-2015 skilaði Ólafur röngum skattframtölum þar sem tekjur hans voru vantaldar um tæpar 45 milljónir.Komu þær tekjur bæði frá Hraðfrystihúsi Hellissands og Sæmarki-Sjávarafurðum. Þar að auki var hann dæmdur fyrir notkun á erlendu kreditkorti sem greitt var með fjármunum frá Sigurði Gísla Björnssyni, forsvarsmanni Sæmarks.Alls komst Ólafur hjá því að greiða tekjuskatt og útsvar sem nemur tæpri 21 milljón króna. Með því að nýta sér þá fjármuni var hann dæmdur fyrir peningaþvætti.Fram kemur í dóminum að Ólafur hafi ekki áður sætt refsingu og játning hans er metin honum til málsbóta við ákvörðun refsingar.Ólafur hefur þegar endurgreitt vangreiddan tekjuskatt en hefur samkvæmt dóminum fjórar vikur til að greiða sektina. Verjandi Ólafs afsalaði sér þóknun vegna starfa sinna.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.