Erlent

Morales fær hæli í Mexíkó

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Evo Morales.
Evo Morales. vísir/getty
Evo Morales, sem í gær sagði af sér sem forseti Bólivíu, hefur fengið hæli í Mexíkó.

Þetta tilkynnti utanríkisráðherra Mexíkó, Marcelo Ebrard, á blaðamannafundi í dag. Er Morales veitt hæli af mannúðarástæðum en hann óskaði eftir því sjálfur við yfirvöld í Mexíkó að fá hæli í landinu.

Morales sagði af sér í gær í kjölfar þess að yfirmaður bólivíska hersins hvatti hann til þess að víkja úr embætti forseta.

Mikil mótmæli hafa verið í Bólivíu undanfarnar vikur eftir að alþjóðlegir eftirlitsaðilar settu út á framkvæmd forsetakosninganna sem fram fóru í október. Morales lýsti yfir sigri í þeim kosningum.

Að því er segir á frétt BBC hefur Morales sjálfur ekki tjáð sig um það að honum hafi verið veitt hæli í Mexíkó en áður hafði hann hvatt stuðningsmenn sína til þess að berjast við þau myrku öfl sem neyddu hann til þess að segja af sér.

Morales var fyrst kjörinn forseti árið 2005. Hann var fyrsti forseti Bólivíu af frumbyggjaættum en áður en hann var kjörinn forseti var hann kókabóndi.



Hann var síðan aftur kjörinn forseti 2009 og 2014 og naut vinsælda hjá bólivísku þjóðinni enda barðist hann hatrammlega gegn fátækt og bætti efnahag landsins.

En árið 2016 efndi hann til þjóðaratkvæðagreiðslu um að heimila forseta að sitja lengur en þau tvö kjörtímabil sem þá var leyft samkvæmt stjórnarskrá sem samþykkt var 2009. Því var hafnað en stjórnlagadómstóll ákvað engu að síður að heimila það.

Morales bauð sig því fram í fjórða sinn. Það var umdeilt í ljósi þess að þjóðin hafði hafnað því að leyfa slíkt. Morales vann síðan nauman sigur í síðasta mánuði en á sunnudag gerðust hlutirnir hratt.

Eftirlitsaðilar á vegum Stofnunar amerískra ríkja (OAS) sögðu ljóst að úrslitum í forsetakosningunum hefði verið hagrætt. Var kallað eftir því að kosningarnar yrðu ógiltar.

Morales brást við og sagði að haldnar yrðu nýjar kosningar. Það dugði þó ekki því yfirmaður hersins kallaði eftir afsögn forsetans.

Morales hefur kallað þetta valdarán en kveðst hafa sagt af sér svo samherjar hans í pólitík, hinum sósíalíska Mas-flokki, yrðu ekki áreittir, hótað og ofsóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×