Fótbolti

Dregið í EM-umspilið eftir viku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska liðið sem byrjaði leikinn gegn Tyrklandi í gær.
Íslenska liðið sem byrjaði leikinn gegn Tyrklandi í gær. vísir/getty
Eftir markalaust jafntefli við Tyrkland í Istanbúl í gær á Ísland ekki lengur möguleika á að fara beint á EM 2020. Frakkland og Tyrkland eru örugg með efstu tvö sætin í H-riðli undankeppninnar.Íslendingar eiga hins vegar enn möguleika að komast á annað Evrópumótið í röð í gegnum umspil. Það fer fram í lok mars á næsta ári. Þar þarf Ísland að vinna tvo leiki til að komast á EM.Dregið verður í umspilið eftir viku, eða föstudaginn 22. nóvember.Nánari útskýringu á umspilinu má lesa hér og neðar í fréttinni.Ekki liggur enn fyrir hvaða liðum Ísland getur mætt í umspilinu í mars 2020 en ef Sviss kemst beint inn á EM mætir Ísland líklega Búlgaríu, Ísrael eða Rúmeníu í umspilinu.Ljóst er að Ísland fær heimaleik í undanúrslitum umspilsins sem fara fram 26. mars. Það kemur svo í ljós næsta föstudag hvar úrslitaleikurinn í umspilinu 31. mars fer fram.Guðni Bergsson, formaður KSÍ, ræddi málin í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Umspilið útskýrt

Ísland er svo gott sem öruggt með sæti í umspili fyrir EM 2020 sem fer fram í lok mars. En hvernig virkar það umspil og hvaða andstæðinga getur Ísland fengið þá?

Hvenær?

Umspilið fer fram á tveimur leikdögum; 26. mars og 31. mars á næsta ári.Fjögur lið eru í hverju umspili og er spilað með útsláttarfyrirkomulagi. Undanúrslit fara fram 26. mars og sigurvegarar þeirra leikja mætast í úrslitaleik um eitt laust sæti á EM 2020 þann 31. mars.

Hvaða lið komast í umspilið?

Umspilið er reiknað út frá árangri liða í Þjóðadeild UEFA (Nations League) sem fór fram haustið 2018 en fjögur sæti á EM 2020 eru í boði í umspilinu.Þjóðadeild UEFA var skipt í fjórar deildir (A, B, C og D) og fær hver deild sitt umspil, þar sem eitt sæti á EM 2020 er í húfi fyrir hverja deild.

Hvernig er umspilið samansett?

Fjögur bestu liðin úr hverri deild sem ekki komust inn á EM 2020 í gegnum undankeppnina fá sæti í umspilinu. En hér byrja málin að flækjast.Ísland var í A-deildinni og líkur eru á að Ísland verði í litlum hópi A-deildarliða sem ekki tryggja sér sæti á EM 2020 í undankeppninni. En hvaða liðum mætir þá Ísland í umspilinu?Það er erfitt að fullyrða nákvæmlega um það núna þar sem að undankeppnin fyrir EM 2020 er enn ekki lokið. En það er hægt velta því upp út frá núverandi stöðu liðanna.A-deild: 2 lið komast ekki áfram úr undankeppninni (Sviss og Ísland)

B-deild: 4 lið komast ekki áfram (Bosnía, Wales, Slóvakía og Norður-Írland)

C-deild: 13 lið komast ekki áfram

D-deild: 16 lið komast ekki áframSvona myndi því umspilið líta út miðað við núverandi stöðuA-deild: Ísland, Sviss, ???, ???

B-deild: Bosnía, Wales, Slóvakía, Norður-Írland

C-deild: Skotland, Noregur, Serbía og ???

D-deild: Georgía, Norður-Makedónía, Kósóvó og Hvíta-RússlandLjóst er að það þarf að sækja tvö önnur lið til að klára umspil A-deildar. Þá er leitað í næstu deildir fyrir neðan.Ekki er hægt að sækja þau lið í B-deildina þar sem að átta af tólf liðum fara beint á EM í gegnum undankeppnina. Hin fjögur sem eftir standa fara í sitt umspil.Það er hins vegar nóg af liðum í C-deildinni sem ekki fara beint á EM og þangað yrðu þau sótt fyrir umspil A-deildarinnar. Það er þó ekki hægt að sækja lið sem unnu sína riðla úr C-deildinni og þess vegna eru Skotland, Noregur og Serbía örugg með að spila sitt umspil í sinni deild.Öðru máli gegnir um önnur lið í C-deildinni en næst inn á eftir hinum þremur eru Búlgaría, Ísrael og Rúmenía. Eitt af þessum þremur fer í umspil C-deildar og hin tvö í umspil A-deildar.Þann 22. nóvember verður dregið í umspil, meðal annars um hvaða neðrideildarlið dragast í umspil efri deilda.

Hvernig fer umspilið fram?

Liðunum er styrkleikaraðað eftir árangri í Þjóðadeildinni. Ísland og Sviss fá því bæði heimaleiki í undanúrslitum og mæta þá liði úr C-deildinni á sínum heimavelli þann 26. mars. Sigurvegarar leikjanna mætast svo í úrslitaleik 31. mars.En hver fær að spila úrslitaleik umspilsins á heimavelli? Það verður líka dregið um það þann 22. nóvember.

Niðurstaða

Þetta er flókið, eins og sjá má á þessari lesningu. Það sem stendur upp úr núna er þó að Ísland á nánast örugglega sæti í umspilinu í mars. En það kemur ekki endanlega í ljós fyrr en eftir undankeppnina hvaða andstæðinga Ísland fær.En til að eiga sem bestan möguleika á að komast í lokakeppni EM næsta sumar væri vissulega gott að sleppa við jafn sterkt lið og Sviss í umspilinu. 


Tengdar fréttir

Alfreð fór úr axlarlið

Alfreð Finnbogason fór úr axlarlið í fyrri hálfleik leiks Tyrklands og Íslands í undankeppni EM 2020.

Gylfi: Leggjum allt í umspilið í mars

Gylfi Þór Sigurðsson segir að það hafi verið svekkjandi að fá aðeins jafntefli úr leiknum gegn Tyrklandi á erfiðum útvelli í kvöld
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.