Umfjöllun: Tyrkland - Ísland 0-0 | Millimetrum frá því að senda stressaða Tyrki á gervigrasið í Andorra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Björgvin Magnússon getur ekki leynt vonbrigðum sínum eftir að Tyrkir höfðu bjargað á marklínu frá honum.
Hörður Björgvin Magnússon getur ekki leynt vonbrigðum sínum eftir að Tyrkir höfðu bjargað á marklínu frá honum. Getty/ Matthew Ashton
Tyrkir tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitakeppni EM næsta sumar og sendu um leið íslenska landsliðið í Þjóðadeildarumspilið í mars. Markalaust jafntefli var nóg fyrir Tyrki til að gulltryggja farseðilinn sinn. Leikurinn einkenndist meira af baráttu og brotum en íslenska liðið var ótrúlega nálægt því að tryggja sér sigurinn undir lokin.

Varamaðurinn Hörður Björgvin Magnússon var millimetrum frá því að eiga algjöra draumabyrjun og tryggja íslenska liðinu lífsnauðsynlegan sigur. Juventus maðurinn Merih Demiral var hins vegar hetja kvöldsins þegar hann náði á einhvern ótrúlegan hátt að bjarga skalla Harðar á línu og svo munaði engu strax á eftir þegar Jón Daði Böðvarsson var við það að setja frákastið í markið.

Undirritaður sá fyrir sér svipaðar senur og þegar Hörður Björgvin tryggði Íslandi eftirminnilegan sigur á Króötum en að þessu sinni var heppnin ekki með honum og íslenska liðinu.

Þetta var samt mómentið sem íslenska liðið var búið að bíða eftir og vinna fyrir í rúmar áttatíu mínútur. Tyrkir hefðu átt einnig möguleika til viðbótar en íslenskur sigur hefði

Tyrkir fögnuðu jafnteflinu eins og sigri og fyrir strákana okkar var jafnteflið eins og tap. Frammistaða liðsins var hins vegar til fyrirmyndar við mjög erfiðar aðstæður og á móti mjög góðu liði. Liðin hefur oft spilað betri fótbolta en strákarnir nálguðust krefjandi verkefni af fagmennsku og skynsemi. Úrslitin þýða aftur á móti að Tyrkir fylgja Frökkum á EM en ætli íslenska landsliðið að vera með í úrslitakeppnin EM alls staðar næsta sumar þá þarf liðið að vinna tvo umspilsleiki í marsmánuði.

Oftast hefur einn framherji byrjað útileikina en nú voru þrír framherjar í byrjunarliðinu. Kolbeinn Sigþórsson og Alfreð Finnbogason voru fremstir og svo Jón Daði Böðvarsson út á vinstri kanti. Nýstárleg uppstilling Erik Hamrén entist aðeins í rúmar tuttugu mínútur því Alfreð fór úr axlarlið og varð að fara að velli. Jón Daði fór því fram og Arnór Sigurðsson kom á hægri kantinn.

Fyrri hálfleikurinn spilaðist alls ekki illa fyrir íslenska liðið. Tyrkir fóru varlega og settu ekki mikla pressu á íslenska liðið. Á móti náðu íslensku strákarnir að vinna sér inn nokkur horn og innköst sem sköpuðu smá hættu í teig Tyrkja. Íslenska liðinu tókst hins vegar ekki að skapa sér nein alvöru færi.

Tyrkir sköpuðu sér ekki mikið heldur. Það tók reyndar smá tíma fyrir íslenska liðið að stilla sig á móti hinum eldfljóta Cengiz Ünder og þá fékk fyrirliðinn Burak Yilmaz úrvals skallafæri eftir hálftíma leik en hitti ekki boltann almennilega. Kannski sem betur fer því hann var aleinn í teignum.

Fyrir utan það var sóknarleikurinn ekki settur á oddinn hjá tyrkneska liðinu og fyrri hálfleikurinn var rólegur. Uppskrift Tyrkja var að halda boltanum og reyna skyndisóknir þegar möguleiki var á því. Framan af leik virtustu þeir alveg sáttir með markalaust jafntefli.

Burak Yilmaz, fyrirliði Tyrkja, var eitthvað illa stilltur í kvöld sem betur fer en hann var næstum því búinn að skora þegar fyrirgjöf hans fleyttist af slánni í byrjun seinni hálfleiks. Boltinn átti eftir að lenda aftur í íslensku slánni eftir fyrirgjöf en hefðbundin skot þeirra voru bitlaus.

Pirringurinn magnaðist hjá Tyrkjum með hverri mínútunni og þjálfarinn Senol Günes fékk gult spjald á 56. mínútu. Hann var ekki í rónni enda hefði eitt íslenskt mark breytt öllu. Einn úr starfsliðinu var síðan rekinn af velli í lokin fyrir að hindrað íslenskan leikmanna að taka innkast.

Á 82. mínútu kom tækifærið eftir frábæra hornspyrnu Gylfa. Tyrkir björguðu á marklínu frá Herði Björgvini Magnússyni, Jón Daði var ótrúlega nálægt því að koma frákastinu í markið og Gylfi átti að lokum þrumuskot rétt yfir. Tyrkir gátu andað léttar eftir þessa stórskotahríð en þarna var stóra tækifærið sem íslensku strákarnir voru búnir að bíða eftir allan leikinn.

Tyrkir höfðu sýnt þolinmæði í síðustu tveimur heimaleikjum sínum á móti Albaníu og Andorra þar sem sigurmörkin komu í lokin. Jafnteflið var líka sama sem sigur fyrir þá. Þeir héldu út en íslenska liðið náði að setja þó nokkra pressu á þá undir lokin. Það var enginn Tyrki á vellinum rólegur fyrr en Anthony Taylor dómari flautaði til leiksloka.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira