Erlent

Ætlun Trumps sé að vekja ótta hjá þeim sem hyggjast bera vitni

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Yovanovitch segir að Trump hefði í maí bolað sér úr embætti.
Yovanovitch segir að Trump hefði í maí bolað sér úr embætti. Vísir/AP
Opinberar vitnaleiðslur rannsóknar Bandaríkjaþings á mögulegum embættisbrotum Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, standa nú yfir en í dag bar Marie Yovanovitch, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu vitni.

Yovanovitch segir að Trump hefði í maí bolað sér úr embætti fyrir að hafa reynt að telja Rudy Giuliani, lögmann Trumps, af því að biðja úkraínsk yfirvöld um aðstoð við að rannsaka Joe Biden, pólitískan andstæðing Trumps. Henni var skyndilega vikið úr embætti í maí en rétt áður hafði hún verið fengin til að sitja áfram sem sendiherra í Kænugarði.

Í minnisblaði sem Hvíta húsið birti um umdeilt símtal Trumps og Zelenskíj, forseta Úkraínu, frá því í júlí kom fram að Trump kallaði Yovanovitchvandræðagemsa sem ætti eftir að "lenda í ýmsu" eins og hann komst að orði.

Á meðan Yovanovitch bar vitni í dag talaði forsetinn illa um hana í röð tísta. Yovanovitch sagði Trump, með þessu, vera að ógna sér.

Adam Schiff, formaður leyniþjónustumálanefndar fulltrúadeildar þingsins ræddi við hana og sagðist líta málið alvarlegum augum.

Framferði Trumps hefði engan annan tilgang en að ógna vitni í málinu og að vekja ótta hjá þeim sem hyggjast gera slíkt hið sama.

Hér fyrir neðan má sjá stutt brot úr vitnisburði Yovanovitch.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×