Erlent

Fangaverðir Epsteins ákærðir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bandaríski auðkýfingurinn Jeffrey Epstein framdi sjálfsvíg í fangaklefa sínum í ágúst síðastliðnum.
Bandaríski auðkýfingurinn Jeffrey Epstein framdi sjálfsvíg í fangaklefa sínum í ágúst síðastliðnum. Vísir/AP
Tveir fangaverðir sem voru á vakt kvöldið sem bandaríski auðkýfingurinn Jeffrey Epstein lést hafa verið ákærðir fyrir gagnafölsun. Þeir eru jafnframt sagðir hafa látið hjá líða að huga að Epstein á hálftímafresti umrætt kvöld, líkt og þeim bar að gera.

Epstein framdi sjálfsvíg í fangaklefa sínum á Manhattan í New York-borg í ágúst síðastliðnum. Hann var grunaður um stórtæk kynferðisbrot og hafði m.a. verið ákærður fyrir mansal á ungum stúlkum.

Sjá einnig: „Alvarlegir misbrestir“ í fangelsinu þar sem Epstein lést



Fangaverðirnir heita Tova Noel og Michael Thomas, báðir 41 árs, að því er fram kemur í yfirlýsingu saksóknara. Þeim bar að líta eftir Epstein á hálftímafresti kvöldið sem hann lést en hann hafði nýlega verið færður af svokallaðri „sjálfsvígsvakt“ í fangelsinu eftir sjálfsvígstilraun.

Saksóknari heldur því þó fram að vörðunum hafi láðst að huga að Epstein og í stað þess „setið við skrifborð sín, vafrað á netinu og hafst við í almenningsrými“ stóran hluta vaktarinnar. Þá hafi þeir falsað skráningar þess efnis að þeir hefðu litið eftir föngum á deildinni, þ. á m. Epstein, með tilsettu millibili.

Áður hefur komið fram að fangaverðir hafi unnið „gífurlega“ yfirvinnu vegna mikillar manneklu á deildinni þegar Epstein fannst látinn.


Tengdar fréttir

„Jane Doe 15“ vill svör frá Andrési prins

Kona, sem segir Jeffrey Epstein hafa brotið kynferðislega gegn sér þegar hún var 15 ára gömul, hefur höfðað mál gegn dánarbúi bandaríska auðkýfingsins.

Eins og að horfa á mann sökkva í kviksyndi

Lögmaður fimm þolenda barnaníðingsins og auðjöfursins Jeffreys Epstein segir að viðtal BBC við Andrés Bretaprins, vin Epsteins, um ásakanir gegn prinsinum hafi verið hamfarakennt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×