Erlent

Eins og að horfa á mann sökkva í kviksyndi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Lögmaður fimm þolenda barnaníðingsins og auðjöfursins Jeffreys Epstein segir að viðtal BBC við Andrés Bretaprins, vin Epsteins, um ásakanir gegn prinsinum hafi verið hamfarakennt.

Andrés, sem er hertoginn af Jórvík og sonur Elísbetar Bretlandsdrottningar, er sakaður um að hafa brotið gegn Virginiu Roberts Guiffre þegar hún var sautján ára gömul. Giuffre segir að Epstein, sem lést í fangesi í ágúst síðastliðnum, hafi þvingað sig.

Breski prisinn var til viðtals hjá BBC um helgina þar sem hann hafnaði ásökununum alfarið. Viðtalið vakti litla hrifningu og sagði fjölmiðlafulltrúi prinsins af sér í kjölfarið.

Lisa Bloom, lögmaður fimm þolenda Epsteins, sagði svo við Sky News í dag að viðtalið við Andrés hafi hreinlega verið hamfarakennt. „Þetta viðtal hjálpaði honum ekki neitt,“ sagði Bloom. Að horfa á viðtalið hafi verið líkt og að fylgjast með manni sökkva í kviksyndi.

„Hann virðist ekki hafa neina samúð með þolendunum og hann virðist ekkert sjá eftir vinskap sínum við Jeffrey Epstein. Hann á rétt á því að verja sig, vissulega, og neita ásökununum og ég veit ekki hvað er rétt eða rangt í þessu samhengi. En hann virðist vera með steinhjarta þegar kemur að þolendunum.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.