Erlent

Kona fannst látin með kyrkislöngu hringaða um sig

Samúel Karl Ólason skrifar
Snákur af sömu tegund og sá sem er talinn hafa banað konunni. Þeir finnast í suðaustur Asíu.
Snákur af sömu tegund og sá sem er talinn hafa banað konunni. Þeir finnast í suðaustur Asíu. Vísir/Getty
Lögregluþjónar í Indiana í Bandaríkjunum fundu á miðvikudaginn lík konu sem 2,4 metra löng kyrkislanga var búin að hringa sig um.

Don Munson, fógeti sýslunnar sem um ræðir, fann konuna, Lara Hurst, í húsi í hans eigu. Um 140 snákar fundust í húsinu og virðist sem að Hurst hafi verið þar til að huga að tuttugu snákum sem hún átti í húsinu, sem hafði verið breytt til að halda þar snáka.



Ekki liggur fyrir að snákurinn hafi orðið konunni að bana en talið er að svo sé. Krufning mun leiða sannleikann í ljós.

Fógetinn Munson býr í næsta húsi og kom hann að Hurst á miðvikudaginn. Samkvæmt héraðsmiðlinum Journal and Courier sagði hann lögreglu að auðvelt hefði verið að ná snáknum af henni.



Í fréttinni segir að Munson hafði sjálfur alið snáka lengi. Journal and Courier rifjar upp sögu frá 2001 þegar hann fór í grunnskóla á svæðinu, eftir boð frá skólastjóranum, og sýndi börnum þar fjögurra metra langan snák sem var í eigu hans. Munson sagði börnunum að hann ætti 52 snáka.

Munson vildi ekki fara út í það af hverju allir þessi snákar hafi verið í húsi hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×