Erlent

Baulað á Bandaríkjaforseta á bardagakvöldi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Trump veifaði til áhorfenda þrátt fyrir blendnar viðtökur.
Trump veifaði til áhorfenda þrátt fyrir blendnar viðtökur. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti hlaut misgóðar viðtökur í Madison Square Garden-höllinni í New York í gærkvöldi þar sem hann var mættur til þess að fylgjast með UFC 244 bardagakvöldinu. Stór hluti áhorfendaskarans baulaði á forsetann en þó voru nokkrir sem tóku forsetanum fagnandi.

Trump var ásamt sonum sínum, Donald yngri og Eric, og öðrum háttsettum meðlimum Repúblikanaflokksins mættur til þess að fylgjast með bardögum kvöldsins. Varð hann meðal annars vitni að því þegar Jorge Masvidal sigraði Nate Diaz.

Kölluðu viðstaddir meðal annars eftir því að Trump yrði fangelsaður, en í kosningabaráttu sinni fyrir forsetakosningarnar 2016 var það vinsælt hjá stuðningsmönnum Trump að kalla eftir hinu sama gagnvart þáverandi mótframbjóðanda hans, Hillary Clinton. Þá mátti í mannhafinu sjá skilti sem á voru skilaboð á borð við „Fjarlægið Trump“ og „Ákærið Trump.“





Tvennum sögum fer þó af móttökunum sem forsetinn fékk, en sonur hans, Donald Trump yngri, segir þær hafa verið „jákvæðar að langstærstum hluta“ og að forseti UFC, Dana White, hafi kallað inngöngu forsetans í Madison Square Garden „rafmögnuðustu innkomu sem hann hefði séð í 25 ár.“

Rétt er að benda á að White og Trump er vel til vina, meðal annars vegna þess að fyrir áratugum síðan, þegar UFC var enn að ryðja sér til rúms og mætti heldur meiri mótspyrnu almennings og fjölmiðla heldur en í dag, kostaði Trump sjálfur UFC bardagakvöld.

„Ég myndi aldrei segja nokkuð neikvætt um Donald Trump því hann var til staðar þegar aðrir voru það ekki,“ sagði White en hann ávarpaði meðal annars flokksþing Repúblikanaflokksins árið 2016, þar sem hann hélt ræðu til stuðnings forsetaframboði Trump.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×