Enski boltinn

Pep Guardiola hættur við að kalla Sadio Mane leikara: Rangt hjá mér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola með Sadio Mane eftir leik Liverpool og Manchester City í fyrra.
Pep Guardiola með Sadio Mane eftir leik Liverpool og Manchester City í fyrra. Getty/Laurence Griffiths
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, nýtti blaðamannafund fyrir Meistaradeildarleik Manchester City á móti Atalanta í kvöld til þess að draga til baka það sem hann sagði um Liverpool manninn Sadio Mané um helgina.

Guardiola hélt því fram eftir leik Manchester City um helgina að Sadio Mané stundaði það stundum að láta sig detta en Mané fékk gult spjald fyrir leikaraskap í endurkomusigri Liverpool á Aston Villa.

Sadio Mané skoraði seinna sigurmarkið í uppbótatíma leiksins og Liverpool er því áfram með sex stiga forskot á City. Liðin mætast um næstu helgi og margir litu svo á að orð Pep Guardiola um Mané væri hluti af sálfræðistríði fyrir leikinn mikilvæga.

Jürgen Klopp var ekki hrifinn af orðum Pep Guardiola og vísaði þeim heim aftur til föðurhúsanna. Sagði meðal annars að hann þekkti Mané miklu betur en Pep.

Þegar kom að blaðamannafundinum í gær var komið allt annað hljóð í Pep Guardiola.  





„Liverpool fékk víti á 94. mínútu á móti Leicester og ég sagði bara vá. Þess vegna var ég að tala um þetta. Það var ekki ætlun mín að segja að Sadio sé þannig leikmaður því ég dáist mikið að honum,“ sagði Guardiola.

„Jürgen fannst þetta vera víti, dómarinn dæmdi víti, VAR var á því að þetta væri víti svo ég var sá sem hafði rangt fyrir mér,“ sagði Guardiola.

„Jürgen hefur sagt að hann þekki Sadio betur en ég. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim og því að vera alltaf jákvæður og reyna að spila góðan fótbolta. Þegar sonur minn eða dóttir vinna á lokamínútunni og spyrja mig hversu heppin þau voru þá svara ég að þetta hafi ekki verið heppni,“ sagði Guardiola.

„Það sem Liverpool hefur gert, bæði á síðasta tímabili og á þessu tímabili, hefur liðið afrekað af því að þeir búa yfir miklum gæðum og hæfileikanum að berjast allt til enda leikja. Vonandi get ég skýrt þetta allt út fyrir Jürgen,“ sagði Guaridola.

„Ef lið kemur svona til baka einu sinni eða tvisvar þá er þetta kannski heppni. Þetta getur ekki verið heppni þegar þetta er að gerast tíu, tólf eða þrettán sinnum,“ sagði Guardiola.

Þegar Pep Guardiola var spurður út í orð Jürgen Klopp um að Spánverjinn væri heltekinn af Liverpool, þá svaraði hann. „Ég hlustaði ekki á það sem hann sagði svo ég veit ekki,“ sagði Pep Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×