Erlent

Gróður­eldar herja á íbúa í Ástralíu

Atli Ísleifsson skrifar
Eldarnir hafa blossað upp á svæðum þar sem þurrkar hafa verið miklir.
Eldarnir hafa blossað upp á svæðum þar sem þurrkar hafa verið miklir. epa
Talsmenn ástralskra yfirvalda segja að fordæmislaus fjöldi alvarlegra skógarelda ógni nú íbúum í ríkinu New South Wales í suðausturhluta landsins. Rúmlega níutíu eldar voru skráðir í ríkinu fyrr í dag.

Eldarnir hafa blossað upp á svæðum þar sem þurrkar hafa verið miklir og hafa miklir vindar séð til þess að útbreiðslan hefur verið hröð og torveldað allt slökkvistarf.

„Við höfum aldrei áður staðið frammi fyrir þessu,“ segir slökkviliðsstjórinn Shane Fitzsimmons. Segir hann að fimmtán eldar séu flokkaðir sem efsta stigs á kvarða sem skilgreinir hættu fyrir almenning. Aldrei áður hafi jafn margir hættulegir eldar logað samtímis í ríkinu.

Slökkvilið í New South Wales hafa glímt við mörg hundruð elda síðan í september, en á síðasta ári létu tveir almennir borgarar lífið þar sem þeir reyndu að verja heimili sín frá eldunum.

Í frétt BBC segir að í síðustu viku hafi einn eldanna náð yfir tvö þúsund hektara svæði, þar sem meðal annars var að finna griðasvæði kóalabjarna.

Slökkviliðsmenn segja að búast megi við að eldarnir muni halda áfram að loga, nema að til komi rigning. Oft þurfi þyrlur að fljúga langa leið til að sækja vatn sem notað er til að hefta útbreiðslu eldanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×