Erlent

„Eins og 12 ára gamalt barn í flugturni“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseta er lýst sem grimmum og hættulegum í nýrri bók.
Donald Trump Bandaríkjaforseta er lýst sem grimmum og hættulegum í nýrri bók. vísir/getty
Nafnlaus höfundur bókar sem fjallar um Donald Trump Bandaríkjaforseta og embættistíð hans hingað til í Hvíta húsinu sparar ekki stóru orðin ef marka má umfjallanir Washington Post og New York Times um bókina.

Höfundurinn, sem er sá sami og skrifaði nafnlausan pistil í New York Times í fyrra um Trump, segir forsetann takast á við hvert vandamálið á fætur öðru „eins og 12 ára gamalt barn í flugturni sem ýti handahófskennt á takka stjórnvalda, taki ekkert tillit til flugvélanna sem renna yfir flugbrautina og flugvélanna sem koma sér burt frá flugvellinum í óðagoti.“

Vandamálin kalli hann yfir sig sjálfur. Þá segir höfundurinn Trump grimman, óhæfan og hættulegan bandarísku þjóðinni.

Bókin heitir A Warning og kemur út þann 19. nóvember næstkomandi. Hennar er beðið með mikilli eftirvæntingu en fyrrnefndir fjölmiðlar hafa fengið bókina afhenta.

Höfundurinn segir umræðuna ekki eiga að snúast um hann

Höfundinum er aðeins lýst sem háttsettum embættismanni í ríkisstjórn Trump.  Í umfjöllun Washington Post er bókin sögð óvægð lýsing á karakter Trump, þar sem siðferði hans og gáfnafar er meðal annars tekið fyrir.

 

Bókina byggir höfundur á eigin reynslu auk þess sem hann segir að ýmsir aðrir embættismenn í ríkisstjórn Trump, núverandi eða fyrrverandi, hafi deilt reynslu sinni.

„Ég hef ákveðið að gefa þessa bók út nafnlaust því umræðan á ekki að snúast um mig. Þessi bók er um okkur. Hún fjallar um það hvernig við viljum að forsetinn endurspegli þjóð okkar og það er það sem umræðan ætti að snúast um. Einhverjir munu kalla þetta heigulshátt og það særir mig ekki. Ég er undir það búin/n að tengja nafn mitt við á gagnrýni á Trump. Ég gæti gert það í framtíðinni,“ segir höfundurinn.

Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Stephanie Grisham, kallaði bókina „skáldskap“ og nafnlausan höfundinn „heigul.“

„Alvöru höfundar nálgast umfjöllunarefni sitt til þess að fá staðreyndirnar á hreint en þessi einstaklingur er í felum, þannig að ómögulegt er fyrir hann að vera alvöru rithöfundur. Blaðamenn sem skrifa um þessa bók ættu að hafa heiðarleika blaðamennskunnar í hávegum og fjalla um hana eins og hún er; sem skáldskap,“ segir Grisham í tölvupósti til Washington Post.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×