Innlent

Sáttasemjari fenginn til að miðla málum á Akranesi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Starfsfólk við skólann er ósátt með launin sín.
Starfsfólk við skólann er ósátt með launin sín. Fréttablaðið/Pjetur
Sérstakur ráðgjafi og sáttasemjari hefur verið ráðinn til þess að miðla málum milli aðila að stofnanasamningi Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Þetta kemur fram á vef Kennarasambands Íslands.

Starfsfólk við skólann hefur þrýst á yfirvöld að ráðning skólameistara verði flýtt og laun starfsfólks leiðrétt, svo þau verði sambærileg þeim sem tíðkist í öðrum framhaldsskólum.

Flestir kennarar skrifuðu í byrjun október undir vantraustsyfirlýsingu á núverandi skólameistara skólans, Ágústu Elínu Ingþórsdóttur, og óskuðu þess við Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra að hún yrði ekki ráðin aftur skólameistari.

Ágústa hefur höfðað mál gegn íslenska ríkinu vegna ákvörðunar ráðherra að auglýsa stöðuna lausa til umsóknar 2020. Telur hún að tilkynning þess efnis frá ráðherra hafi borist of seint.

Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, og Ægir Karl Ægisson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum, fagna þessu skrefi og vilja hrósa kennurum, stjórnendum og skólameistara skólans fyrir að halda fagmennskunni í forgrunni og gera nú aftur atlögu að samningum eftir erfiðar deilur.

„Um leið og formenn vona innilega að góður árangur hljótist af sáttaumleitunum ber líka að fagna því að líklega fer óvissu um stjórnun skólans á næsta skipunartímabili skólameistara að ljúka.“

Viðtöl við umsækjendur um stöðu skólameistara eru hafin. Upplýsingar um ráðningu næsta skólameistara FVA hljóta því að birtast fljótlega.


Tengdar fréttir

Uppsögn kostar ríkið milljónir

Íslenska ríkið var í Landsrétti í gær dæmt til að greiða kennara fjórar og hálfa milljón króna í bætur og miskabætur vegna fjártjóns sem hann varð fyrir vegna ólögmætrar uppsagnar sem aðstoðarskólastjóri Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×