Erlent

Viður­kenna fjölda­morðin á Armenum sem þjóðar­morð

Atli Ísleifsson skrifar
Minnisvarðinn um þjóðarmorðið á Armenum í Jerevan, höfuðborg Armeníu.
Minnisvarðinn um þjóðarmorðið á Armenum í Jerevan, höfuðborg Armeníu. Getty
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gærkvöldi með yfirgnæfandi meirihluta ályktun þar sem segir að fjöldamorð Tyrkja á Armenum í fyrra stríði skuli viðurkennd sem þjóðarmorð.

Málið er mjög viðkvæmt og kemur samþykktin á erfiðum tíma í tvíhliða samskiptum Bandaríkjanna og Tyrklands.

Landamæri Tyrklands og Armeníu eru lokuð vegna deilna um morðin, en hundruð þúsunda Armena létu lífið í tengslum við að tyrkneskar hersveitir vísuðu þeim á brott frá austanverðri Anatólíu til Sýrlands og víðar á árunum 1915 til 1916. Voru Armenarnir ýmist drepnir eða fórust af völdum vannæringar eða sjúkdóma.

Deilt er um fjölda þeirra sem fórust, en armensk stjórnvöld segja þau hafa verið um 1,5 milljón. Tyrknesk stjórnvöld segja þau hins vegar hafa verið um 300 þúsund. Samtök sérfræðinga sem rannsaka þjóðarmorð (IAGS) áætla að „rúmlega milljón“ hafi látið þar lífið. Er einnig deilt um ásetning tyrkneska stjórnvalda á þeim tíma og segja Tyrkir að engin kerfisbundin áætlun hafi verið uppi um að eyða þjóðarbroti kristinna Armena.

Í frétt BBC segir að fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden, sem sækist nú eftir að verða forsetaefni Demókrata, telji að með atkvæðagreiðslunni í gær sé verið að heiðra minningu hinna látnu. Alls greiddu 405 atkvæði með ályktuninni, en ellefu gegn.

Tyrkir fordæma ályktunina

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, segir atkvæðagreiðsluna hefndaraðgerð vegna hernaðaraðgerða Tyrklands í norðanverðu Sýrlandi fyrr í mánuðinum. Hefur Tyrklandsstjórn harðlega fordæmt ályktunina.

Alls hafa á fjórða tug ríkja viðurkennt morðin sem þjóðarmorð, þar á meðal Brasilía, Kanada, Frakkland, Þýskaland, Ítalía og Rússland. Íslensk stjórnvöld hafa ekki viðurkennt atburðina sem þjóðarmorð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×