Enski boltinn

Liverpool ekki tapað fyrir Arsenal síðan Klopp tók við

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool hefur haft gott tak
Liverpool hefur haft gott tak vísir/getty
Liverpool tekur á móti Arsenal í stórleik 4. umferðar enska deildabikarsins í kvöld.

Liverpool hefur haft gott tak á Arsenal á undanförnum árum. Fara þarf aftur til apríl 2015 til að finna síðasta sigur Arsenal á Liverpool. Þá var Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Liverpool.

Rauði herinn hefur ekki tapað fyrir Skyttunum í stjóratíð Jürgens Klopp sem tók við Liverpool í október 2015.

Undir stjórn Klopps hefur Liverpool mætt Arsenal átta sinnum. Liverpool hefur unnið fimm af þessum leikjum og þrír hafa endað með jafntefli.

Í sjö af þessum átta leikjum hefur Liverpool skorað þrjú mörk eða meira. Arsenal hefur aldrei haldið hreinu gegn Liverpool síðan Klopp tók við.

Áður en Klopp tók við hafði Liverpool aðeins unnið tvo af síðustu 17 leikjum sínum gegn Arsenal.

Liðin mættust síðast á Anfield í ensku úrvalsdeildinni 24. ágúst síðastliðinn. Þá vann Liverpool 3-1 sigur. Mohamed Salah skoraði tvö mörk fyrir Liverpool og Joël Matip eitt. Lucas Torreira gerði mark Arsenal sem hefur ekki unnið í sjö deildarleikjum í röð á Anfield.

Leikur Liverpool og Arsenal hefst klukkan 19:30 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir

Liverpool búið með mun erfiðari leiki en Manchester City

Það er ekki aðeins sex stiga forysta á toppi ensku úrvalsdeildarinnar sem hefur ástæðu til bjartsýni hjá stuðningsmönnum Liverpool. Með því að skoða leikjadagskrá Liverpool og Manchester City til þessa kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós.

Arsenal býður Xhaka upp á fría sálfræðitíma

Það logar allt stafna á milli hjá Arsenal í kjölfar þess að fyrirliði liðsins, Granit Xhaka, brjálaðist er hann var tekinn af velli í leiknum gegn Crystal Palace um síðustu helgi.

Í beinni í dag: Stórleikir á Englandi

Það verða stórleikir á dagskrá sportrása Stöðvar 2 í kvöld. Íslenski handboltinn mætir aftur, enski deildarbikarinn, Domino's deild kvenna og ítalski og spænski boltinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×