Erlent

Hróp gerð að gagnrýnendum Weinstein á viðburði í New York

Kjartan Kjartansson skrifar
Weinstein hefur lítið látið sjá sig opinberlega eftir að ásakanir á hendur honum komust í hámæli.
Weinstein hefur lítið látið sjá sig opinberlega eftir að ásakanir á hendur honum komust í hámæli. Vísir/EPA

Tveimur konum var vísað út af viðburði fyrir upprennandi leikara í New York og baulað var á aðra sem gagnrýndi veru Harveys Weinstein, kvikmyndaframleiðandans sem hefur verið sakaður um aragrúa kynferðisbrota, þar. Talsmaður Weinstein sagði framferði kvennanna „dónalegt“ og „óþarft“.



Weinstein var boðið á viðburðinn „Leikarastundina“ þrátt fyrir að hann hafi ítrekað verið sakaður um að beita konur kynferðislegu ofbeldi eða áreita þær, þar á meðal leikkonur. Hann gengur nú laus gegn tryggingu en á að koma fyrir dómara vegna ásakana um nauðgun í janúar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.



Kelly Bachman, uppistandari, gagnrýndi Weinstein beint af sviðinu á viðburðinum og vísaði til hans sem „fílsins í herberginu“ og „Freddy Krueger“, persónu úr þekktum hryllingsmyndum.



„Ég vissi ekki að við þyrftum að taka með okkar eigin piparúða og nauðgunarflautu á Leikarastundina,“ sagði Bachman.



Einhverjir viðstaddir bauluðu á Bachman og sögðu henni að þegja. Aðrir klöppuðu og fögnuðu henni. Síðar nálguðust þær Amber Rollo, grínisti, og Zoe Stuckles, leikkona, borð Weinstein og spurðu hvort enginn ætlaði að segja nokkuð. Rollo sagðist síðar hafa kallað Weinstein „skrýmsli“. Þeim var báðum vísað af viðburðinum.



Bachman birti síðar myndband af ummælum sínum á sviðinu. Hún sagði The Guardian að orð sín hefðu „sogað loftið úr herberginu“



„Mér fannst í lagi að það væri þögn. Í aðstæðum sem þessum vil ég ekki að fólki líði þægilega,“ sagði hún.



Uppljóstranir kvenna um áreitni og ofbeldi Weinstein árið 2017 urðu kveikjan að MeToo-byltingunni svonefndu sem breiddist út víða um heim í kjölfarið.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×