Erlent

Fjöl­miðlar berjast fyrir því að réttar­höldin yfir Wein­stein verði opin al­menningi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Harvey Weinstein sést hér yfirgefa dómshúsið í New York í janúar síðastliðnum eftir að hafa komið þá fyrir dómara.
Harvey Weinstein sést hér yfirgefa dómshúsið í New York í janúar síðastliðnum eftir að hafa komið þá fyrir dómara. Getty/Atilgan Ozdil/Anadolu Agency

Associated Press og New York Times eru á meðal þeirra fjölmiðla sem berjast nú fyrir því að réttarhöldin yfir kvikmyndamógúlnum Harvey Weinstein verði opin almenningi.



Bæði saksóknarar í málinu sem og verjendur Weinstein hafa krafist þess að réttarhöldin verði lokuð almenningi, og þar með fjölmiðlum, en í New York er venjan að hafa réttarhöld opin.



Saksóknarar segja að með lokuðum réttarhöldum sé betur hægt að trygga rétt Weinstein á sanngjarnri málsmeðferð auk þess sem þeir vilja vernda friðhelgi einkalífs þeirra kvenna sem stigið hafa fram og sakað kvikmyndaframleiðandann um kynferðisofbeldi.



Verjendur Weinstein vilja síðan loka réttarhöldunum á þeim grundvelli að annars geti umfjöllun fjölmiðla um málið haft áhrif á kviðdóminn.

Telur það engin áhrif hafa að loka réttarhöldunum

Að mati AP og New York Times hafa hvorki saksóknarar né verjendur sýnt fram á að fyrir hendi sé fullnægjandi lagalegur grundvöllur fyrir því að loka réttarhöldunum.

 



„Það er augljóslega enginn rökréttur grundvöllur, og hvað þá aðkallandi aðstæður, sem getur réttlætt kröfur málsaðila um að þær upplýsingar sem nú þegar eru í opinberri umræðu vegna fréttaumfjöllunar um allan heim verði þaggaðar niður,“ segir í kröfu Robert Balin, lögmanns AP og New York Times, til dómstólsins.



Í kröfunni færir Balin rök fyrir því að það að loka réttarhöldunum hafi engin áhrif varðandi það að vernda rétt Weinstein til réttlátrar málsmeðferðar þar sem fjölmiðlar hafa ítrekað fjallað um ásakanir fjölda kvenna á hendur honum um kynferðislegt ofbeldi.



Tugir kvenna hafa stigið fram og sakað kvikmyndamógúlinn um kynferðislega áreitni og/eða nauðgun, þar á meðal leikkonurnar Mira Sorvino og Ashley Judd.



Weinstein er ákærður fyrir að nauðga kunningjakonu sinni á hótelherbergi árið 2013 og fyrir að hafa þvingað aðra konu til munnmaka. Weinstein hefur neitað öllum ásökunum og kveðst saklaus af ákærunni.



Að því er fram kemur í umfjöllun Guardian má búast við því að dómstóllinn í New York taki afstöðu til þess við fyrirtöku í dag hvort réttarhöldin verði lokuð eður ei. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×