Íslenski boltinn

FH vígði Skessuna á 90 ára afmælinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Fimleikafélag Hafnarfjarðar hélt í dag upp á 90 ára afmæli sitt. Við það tilefni var nýtt knatthús, Skessan, vígt í Kaplakrika.

„Afmælisbarninu heilsast ótrúlega vel. Það er öðruvísi með íþróttafélög en mannslíkamann; þau batna eftir því sem árunum fjölgar,“ sagði Viðar Halldórsson, formaður FH, í samtali við Arnar Björnsson í Sportpakkanum.

Viðar segir að Skessan, sem er knatthús í fullri stærð, gjörbreyti allri aðstöðu fyrir FH-inga. Framkvæmdir við húsið hófust fyrir ári síðan.

„Heildarkostnaður við húsið verður í kringum 820 milljónir. Í næstu viku verður farið í viðbyggingu við húsið, þar sem eru búningsklefar og fleira. Vonandi verður það tilbúið undir áramótin,“ sagði Viðar. 

Aðspurður um hver staða FH á 100 ára afmælinu verði kvaðst Viðar bjartsýnn.

„Ég held að FH verði öflugra félag. Svæðið verður komið í fulla notkun og enn glæsilegra en það er í dag. Vonandi verður barna- og unglingastarfið öflugt sem er aðalatriðið,“ sagði Viðar.

Fréttina í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.