Erlent

Afgerandi forskot Íhaldsflokksins í aðdraganda atkvæðagreiðslu

Kjartan Kjartansson skrifar
Hvorki hefur gengið né rekið hjá Johnson í breska þinginu frá því að hann varð forsætisráðherra í júlí. Ekki er útlit fyrir að það breytist á mánudag.
Hvorki hefur gengið né rekið hjá Johnson í breska þinginu frá því að hann varð forsætisráðherra í júlí. Ekki er útlit fyrir að það breytist á mánudag. Vísir/EPA
Íhaldsflokkur Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, mælist með afgerandi forskot á Verkamannaflokkinn, stærsta stjórnarandstöðuflokkinn, í nýrri skoðanakönnun. Johnson ætlar að láta breska þingið greiða atkvæðagreiðslu um tillögu hans um að boða til þingkosninga í desember á mánudag.

Samkvæmt könnun Opinium sem Reuters-fréttastofan segir frá bætir Íhaldsflokkurinn við sig frá síðustu könnun og fengi um 40% atkvæða. Það er sextán prósentustigum meira en Verkamannaflokkur Jeremys Corbyn sem mælist með 24%. Í tíð Corbyn hefur Verkamannaflokkurinn tekið lítt afgerandi afstöðu til útgöngunnar úr Evrópusambandinu.

Frjálslyndir demókratar, sem eru andvígir útgöngu úr Evrópusambandinu, hafa sigið aðeins frá fyrri könnun og mælast nú með um 15%, fimm prósentustigum meira en Brexit-flokkur Nigels Farage, fyrrverandi leiðtoga Breska sjálfstæðisflokksins (Ukip).

Tillaga Johnson um þingkosningar 12. desember verður tekin til atkvæðagreiðslu í þinginu á mánudag. Hún var lögð fram eftir að þingið hafnaði að afgreiða útgöngusamning Johnson við Evrópusambandið í tæka tíð fyrir útgöngu sem var fyrirhuguð 31. október.

Johnson óskaði í kjölfarið eftir fresti á útgöngunni frá ESB en ekki hefur enn verið ákveðið hversu langur hann verður.

Ekki er útlit fyrir að Johnson verði að ósk sinni um kosningar. Flestir stjórnarandstöðuflokkarnir ætla að greiða atkvæði gegn tillögunni eða sitja hjá en tveir þriðju hlutar þingheims verða að samþykkja hana. Norður-írski sambandsflokkurinn (DUP), sem varði minnihlutastjórn Íhaldsflokksins fyrr á kjörtímabilinu, er einnig mótfallinn tillögunni.


Tengdar fréttir

Johnson vill kosningar í desember

Búist er við því að Evrópusambandið samþykki á morgun að fresta útgöngu Bretlands um þrjá mánuði. Breski forsætisráðherrann ætlar að beita sér fyrir því að kosið verði í Bretlandi í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×