Erlent

Tokarczuk og Handke fá bókmenntaverðlaun Nóbels

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Olga Tokarczuk and Peter Handke.
Olga Tokarczuk and Peter Handke.
Verðlaunahafar bókmenntaverðlauna Nóbels árin 2018 og 2019 eru pólski rithöfundurinn Olga Tokarczuk og austurríski rithöfundurinn Peter Handke. Þetta tilkynnti sænska akademían á fréttamannafundi rétt í þessu.

Veitt voru tvenn verðlaun að þessu sinni þar sem engin verðlaun voru veitt í fyrra vegna hneykslismáls sem skók sænsku akademíuna. Eiginmaður eins nefndarmeðlims reyndist sekur um kynferðisbrot og leiddi það til þess að meirihluti meðlima í akademíunni sagði af sér.

Tokarczuk fær verðlaunin fyrir árið 2018. Hún er fædd árið 1962 og er einn fremsti höfundur Póllands. Hún hlaut alþjóðlegu Man Booker-verðlaunin fyrir skáldsögu sína Bieguni í fyrra.

Þá er hún er menntaður sálfræðingur og eftir hana liggja skáldverk af ýmsum toga, bæði ljóð og skáldsögur. Hún hefur einkum vakið athygli fyrir „dularfullan“ ritstíl og ítrekað verið verðlaunuð á Nike-verðlaununum, aðalbókmenntaverðlaunum Póllands.

Tokarczuk er fimmtánda konan sem hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels en talið var líklegt að kona, eða konur, yrðu fyrir valinu í ár.

Peter Handke er fæddur árið 1942 og er verðlaunaður fyrir árið 2019. Hann hefur ritað bæði skáldsögur og leikrit, auk þess sem hann er afkastamikill þýðandi. Á meðal hans þekktustu verka er skáldsagan Die Angst des Tormanns beim Eldmeter, sem gerð var að samnefndri kvikmynd árið 1972.

Hann stökk fyrst fram á sjónarsviðið árið 1966 með hinu framúrstefnulega leikverki Publikumsbeschimpfung.

Fréttin hefur verið uppfærð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.