Erlent

Þrír látnir í Kalíforníu

Andri Eysteinsson skrifar
Mörg þúsund manns hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín.
Mörg þúsund manns hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín. AP/Mindy Schauer
Eldar hafa undanfarið logað í sunnanverðri Kalíforníu, við stórborgina Los Angeles. Yfir 30 byggingar eru skemmdar og þrír eru látnir. AP greinir frá.

Slökkviliðsmönnum hefur reynst erfitt að berjast við eldana sökum óhagstæðrar vindáttar. Vindurinn hefur þó dvínað á síðustu dögum og hefur árangur náðst. Yfirvöld Í Los Angeles segja að umfang brunans hafi ekki aukist síðan fyrir helgina en borgarstjórinn Eric Garcetti hvatti íbúa hverfa, þar sem slökkvistarf hefur staðið yfir, til að sýna aðgát.

Eins og áður segir hafa þrír látið lífið vegna eldana, karlmaður í Los Angeles lést eftir að hafa fengið hjartaáfall þegar hann glímdi við eldinn. Þá létust tvö á hjólhýsasvæði sem hafði orðið eldi að bráð. Þar á meðal var 89 ára gömul kona sem hafði reynt að yfirgefa svæðið. Ekki hafa verið borin kennsl á annað líkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×