Erlent

SÞ ítreka ákall um vopnahlé í Sýrlandi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Geir Pedersen, erindreki Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi, sagði í dag að mannúðarkrísan á yfirráðasvæði Kúrda í norðausturhluta Sýrlands hafi versnað eftir innrás Tyrklands. Nauðsynlegt væri að koma á vopnahléi. „Þetta er einungis hægt að leysa á pólitíska sviðinu. Við köllum eftir viðræðum allra aðila,“ sagði Pedersen.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti sagði ekki koma til greina að setjast niður með hersveitum Kúrda, enda álíti Tyrkir þær hryðjuverkasamtök.

„Aldrei í sögu tyrkneska lýðveldisins hefur tíðkast að setjast við samningaborðið með hryðjuverkasamtökum. Héðan í frá ætti engin að búast við slíku. Við erum ekki að leita að neinum til að miðla málum. Þess er ekki þörf,“ sagði forsetinn.

Erdogan sagði Tyrki nú leggja til að Kúrdar leggi niður vopnin fyrir lok dags. Það væri skilyrðið fyrir því að Tyrkir hætti árásum sínum.

En þótt tyrkneski forsetinn segi enga þörf á því að nokkur miðli málum sagði Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, ríki sitt hafa áhuga á því að gera einmitt það á milli Tyrkja og sýrlenskra stjórnarliða, sem hafa aðstoðað Kúrda við að verjast innrásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×