Erlent

Tíminn senn á þrotum fyrir Johnson

Boris Johnson, breski forsætisráðherrann.
Boris Johnson, breski forsætisráðherrann. AP/Matt Dunham
Leiðtogaráð Evrópusambandsins fundar í Brussel á morgun. Þetta er síðasti fundur leiðtogaráðsins fyrir settan útgöngudag Bretlands úr sambandinu en vonast er til þess að í kvöld liggi fyrir hvort nýr útgöngusamningur náist.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, þarf að ná útgöngusamningi í gegnum þingið í síðasta lagi á laugardag. Annars þarf hann að biðja Evrópusambandið um að útgöngu verði frestað enn á ný. Það er því mikið undir fyrir Johnson í samningaviðræðunum, enda lofaði hann því að fresta útgöngu ekki þegar hann sóttist eftir leiðtogasæti Íhaldsflokksins í sumar.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði í dag að hann hafi verið afar bjartsýnn í gær allt þar til breska samninganefndin fékk nokkra bakþanka. Kvaðst þó vongóður um að staðan myndi skýrast sem fyrst.

„Það ætti allt að skýrast á næstu sjö til átta klukkustundum. Viðræður standa yfir. Ég vonaðist eftir því í morgun að við myndum fá fullsmíðaðan texta nýs útgöngusamnings,“ sagði Tusk fyrr í dag.

Michel Barnier, sem leiðir samninganefnd ESB, upplýsti framkvæmdastjórn sambandsins um gang mála í dag.

En leiðtogaráðið kemur saman til fundar á morgun og vonast til þess að geta lagt lokahönd á nýtt samkomulag. Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, sagðist bjartsýnn þótt nokkur ljón væru enn í veginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×