Erlent

Tíminn senn á þrotum fyrir Johnson

Boris Johnson, breski forsætisráðherrann.
Boris Johnson, breski forsætisráðherrann. AP/Matt Dunham

Leiðtogaráð Evrópusambandsins fundar í Brussel á morgun. Þetta er síðasti fundur leiðtogaráðsins fyrir settan útgöngudag Bretlands úr sambandinu en vonast er til þess að í kvöld liggi fyrir hvort nýr útgöngusamningur náist.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, þarf að ná útgöngusamningi í gegnum þingið í síðasta lagi á laugardag. Annars þarf hann að biðja Evrópusambandið um að útgöngu verði frestað enn á ný. Það er því mikið undir fyrir Johnson í samningaviðræðunum, enda lofaði hann því að fresta útgöngu ekki þegar hann sóttist eftir leiðtogasæti Íhaldsflokksins í sumar.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði í dag að hann hafi verið afar bjartsýnn í gær allt þar til breska samninganefndin fékk nokkra bakþanka. Kvaðst þó vongóður um að staðan myndi skýrast sem fyrst.

„Það ætti allt að skýrast á næstu sjö til átta klukkustundum. Viðræður standa yfir. Ég vonaðist eftir því í morgun að við myndum fá fullsmíðaðan texta nýs útgöngusamnings,“ sagði Tusk fyrr í dag.

Michel Barnier, sem leiðir samninganefnd ESB, upplýsti framkvæmdastjórn sambandsins um gang mála í dag.

En leiðtogaráðið kemur saman til fundar á morgun og vonast til þess að geta lagt lokahönd á nýtt samkomulag. Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, sagðist bjartsýnn þótt nokkur ljón væru enn í veginum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.