Erlent

Segir tollaeftirlit á Írlandi óhjákvæmilegt á Írlandi eftir Brexit

Samúel Karl Ólason skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. EPA/NEIL HALL
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir að eftir úrgöngu Bretlands verði einhvers konar tolleftirlit vegna landamæra Írlands og Norður-Írlands. Hann þvertekur þó fyrir að það muni fela í sér hefðbundið landamæraeftirlit, eins og Írar vilja ekki. Slík landamæri gætu grafið undan friðarsamkomulaginu sem kennt er við föstudaginn langa.

Þá sagði Johnson að Bretland færi úr ESB í lok mánaðarins hvort sem það væri án samkomulags eða með. Það er þrátt fyrir að breskir þingmenn samþykktu lög í síðasta mánuði sem fólu í sér að Johnson þyrfti að semja við forsvarsmenn ESB um frest á Brexit.

Þetta kom fram í máli Johnson í útvarpsviðtali í dag, en deilan um landamæri Írlands og Norður-Írlands og nokkurs konar bakdyr inn í Evrópusambandið hefur hingað til komið í veg fyrir Brexit.



Fregnir hafa borist af því að ríkisstjórn Johnson hafi stungið upp á því að eftirlitsstöðvar yrðu reistar í nokkurra kílómetra fjarlægð frá landamærunum en Johnson sagði það kolrangt. Forsætisráðherrann neitaði að segja frá „mjög góðri“ áætlun sinni og sagði að hún yrði opinberuð síðar.



Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, sagði í dag að líklegasta niðurstaðan í Brexit-deilunum væri að Bretland færi úr Evrópusambandinu, án samkomulags, þann 31. október. Þetta sagði hann á franska þinginu.

Í samtali við Reuters sagði einn af erindrekum ESB að sambandið væri tilbúið til viðræðna. „Kamikaze-aðferð“ Johnson hjálpaði þó ekki til.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×