Erlent

Óánægja með Brexit-tillögur Johnsons

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Svokölluð neyðarráðstöfun um að allt Bretland skyldi áfram vera í tollabandalagi ESB en Norður-Írar einir áfram aðilar að innri markaðnum, til að fyrirbyggja landamæragæslu á milli Írlands og Bretlands, ein helsta ástæðan fyrir því að breska þingið felldi útgöngusamning ríkisstjórnar Theresu May í þrígang.

Nýjar tillögur, sem Johnson kynnti í gær, eru frábrugðnar á þann hátt að Bretar yrðu ekki áfram í tollabandalaginu. Þetta þýðir að þörf skapast fyrir tollgæslu á landamærunum. Johnson hefur sagt hægt að takmarka áhrifin með því að færa eftirlitið frá landamærunum sjálfum. Einnig myndu Norður-Írar áfram þurfa að hlýða stærri hluta Evrópuregluverksins en aðrir Bretar, sem var önnur ástæða þess að þingið hafnaði May-samningnum.

Skiptar skoðanir

Á þinginu í dag sagði Johnson að vissulega væri um málamiðlun að ræða. „Tillögurnar okkar fela í sér málamiðlanir og ég vona að þingið geti nú staðið saman á bakvið þennan nýja samning og opnað þannig á nýjan kafla í vináttu okkar og granna okkar í Evrópu.“

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, er hins vegar ekki sáttur með tillögurnar. „Þessar tillögur eru óraunhæfar og slæmar. Ég tel, eins og forsætisráðherrann veit vafalaust, að þeim verði hafnað í Brussel, á þinginu og um allt land,“ sagði hann.

Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, hafði svo þetta að segja: „Tillögurnar sem Bretar hafa lagt fram eru kærkomnar að því leyti að við erum loksins komin með skriflegar tillögur sem hægt er að ræða um. Það er hins vegar ýmislegt óásættanlegt í þeim.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×