Innlent

Íslenskur ráðherra gæti tekið við friðarverðlaunum Nóbels

Kristján Már Unnarsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson tók við formennsku í Norðurskautsráðinu fyrir Íslands hönd af utanríkisráðherra Finnlands í maímánuði.
Guðlaugur Þór Þórðarson tók við formennsku í Norðurskautsráðinu fyrir Íslands hönd af utanríkisráðherra Finnlands í maímánuði. Mynd/Utanríkisráðuneytið.

Sænska loftslagsbaráttustúlkan Greta Thunberg er að mati veðbanka líklegust til að hljóta friðarverðlaun Nóbels í ár. Sá möguleiki er fyrir hendi að Íslendingur taki við þessari eftirsóttu viðurkenningu í fyrsta sinn í sögunni. Þetta var nánar skýrt í fréttum Stöðvar 2. 

Norska nóbelsverðlaunanefndin tilkynnir í lok næstu viku hver hlýtur friðarverðlaun Nóbels í ár en verðlaunin verða síðan afhent við hátíðlega athöfn í ráðhúsi Oslóar í desember. Að þessu sinni telja veðbankar líklegast að hin sextán ára Greta Thunberg hljóti verðlaunin. Sömu veðbankar segja reyndar Donald Trump Bandaríkjaforseta næstlíklegastan.

Greta Thunberg er að mati veðbanka líklegust til að hljóta friðarverðlaunin í ár. Hér sést hún skamma þjóðarleiðtoga heims í ræðunni frægu hjá Sameinuðu þjóðunum. Vísir/EPA

Nóbelsverðlaunanefndin birtir ekki tilnefningar, aðeins fjölda þeirra, og hefur greint frá því að 301 aðili sé tilnefndur í ár, 223 einstaklingar og 78 samtök. Þröngt skilgreindur hópur hefur rétt til að senda inn tilnefningar. 

Síðustu daga hafa fréttir birst af því að Norðurskautsráðið sé tilnefnt að þessu sinni. Reuters-fréttastofan segir Norðurskautsráðið eitt af þeim nöfnum sem mikið sé í umræðunni í ár; fyrir þátt sinn í að tryggja friðsamleg samskipti á norðurslóðum, þrátt fyrir spennu á svæðinu.

Fulltrúar aðildarríkja Norðurskautsráðsins á fundinum í Finnlandi síðastliðið vor þegar Ísland tók við formennskunni. Vísir/EPA

Fari svo að Norðurskautsráðið hljóti friðarverðlaunin í ár kemur það væntanlega í hlut fulltrúa þess ríkis sem fer með formennskuna í ráðinu að taka við heiðrinum en svo vill til að núna er það Ísland. Sá möguleiki er því fyrir hendi að það verði utanríkisráðherra Íslands, Guðlaugur Þór Þórðarson, sem stígi á sviðið í Osló til að taka við Nóbelnum í ár. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
 


Tengdar fréttir

Trump segist eiga Nóbels­verð­laun skilið

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, fundaði í dag með Imran Khan forsætisráðherra Pakistan, í New York þar sem Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fer fram í vikunni. Á blaðamannafundi leiðtoganna ræddu þeir meðal annars átökin í Kasmír ríki en Trump var ákveðinn í að leysa deilurnar.

Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu

Ísland fer nú með formennsku í Norðurskautsráðinu eftir að Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, tók við formennskukeflinu af Timo Soini, finnskum starfsbróður sínum, á fundi utanríkisráðherra ráðsins sem lauk fyrr í dag í Finnlandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.