Innlent

Spurði hvort sami leyndarhjúpur ríkti ef Ingibjörg hefði fengið gullstöng eða bíl

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Einar Þór Sverrisson lögmaður og Ari Brynjólfsson blaðamaður Fréttablaðsins í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.
Einar Þór Sverrisson lögmaður og Ari Brynjólfsson blaðamaður Fréttablaðsins í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Vísir/vilhelm
Lögmenn í máli Seðlabanka Íslands gegn Ara Brynjólfssyni, blaðamanni Fréttablaðsins, tókust á um upplýsingalög og framgöngu Seðlabankans gagnvart „varðhundi almennings“, blaðamanninum, í Héraðsdómi Reykjaness dag. Þá velti lögmaður Ara því upp hvort sami „leyndarhjúpur“ hefði ríkt um námsstyrk Ingibjargar Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans, ef hún hefði fengið gullstöng eða bíl, en ekki fjárstyrk, við starfslokin.

Seðlabankinn stefndi Ara til að fá úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá því í júlí síðastliðnum felldan úr gildi. Nefndin taldi Seðlabankanum skylt að veita blaðamanninum upplýsingar um námsstyrk sem Ingibjörg fékk þegar Már Guðmundsson, þáverandi seðlabankastjóri, gerði við hana starfslokasamning.

Sjá einnig: Bankinn höfðar mál gegn blaðamanni



Fréttablaðið hefur eftir heimildum sínum að Ingibjörg hafi fengið greitt á annan tug milljóna króna við starfslokin, bæði með launagreiðslum án kröfu um vinnuframlag og námsstyrk við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Seðlabankinn hefur enn ekki afhent upplýsingar um samninginn en réttaráhrifum úrskurðarins var frestað meðan málið er rekið.

„Lykilstarfsmönnum“ boðin ýmis fríðindi

Arnar Þór Stefánsson lögmaður Seðlabankans rakti aðdraganda málsins í byrjun ræðu sinnar. Þar kom fram að gjaldeyriseftirlit Seðlabankans hefði verið stofnað í september árið 2009.

Til að halda í lykilstarfsmenn eftirlitsins hafi ýmsum ráðum verið beitt. Þeim hafi verið boðinn lengri uppsagnarfrestur, bónusgreiðslur og lofað framtíðarstörfum í bankanum. Ingibjörg hafi verið einn af þessum lykilmönnum.

Mikið hafi jafnframt mætt á Ingibjörgu á álagstímum, einkum vorið 2016 við losun aflandskróna. Greiddar voru álagsgreiðslur til starfsmanna vegna þeirrar vinnu en Arnar Þór sagði Ingibjörgu ekki hafa borið þar hlutfallslega jafnmikið úr býtum og aðrir starfsmenn.

Til að tryggja að Ingibjörg myndi ekki „fara frá borði“ var gert við hana munnlegt samkomulag í janúar árið 2012 um að hún myndi starfa áfram hjá bankanum í tvö ár, sem urðu þó að endingu um fjögur, gegn því að henni yrði gert kleift að fara í framhaldsnám með hjálp bankans.

Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Seðlabanka Íslands, í dómsal.Vísir/Vilhelm

Fékk styrkinn vegna sérstakrar hæfni og því ekki um föst laun að ræða

Arnar Þór Stefánsson lögmaður Seðlabankans sagði forsendur úrskurðar úrskurðarnefndar upplýsingamála „nokkuð sérstakar“. Þannig byggði hann mál sitt á því að nefndin hefði eingöngu litið til 1. málsgreinar 7. greinar upplýsingalaga og litið svo á að hún leiði þegar til aðgangs að upplýsingunum.

Nefndin hefði ekki vikið einu orði að samspili 1. og 2. málsgreinar laganna, en sú síðari lýtur að þeim upplýsingum um opinbera starfsmenn sem stofnunum er skylt að veita.

Ingibjörg hefði fengið námsstyrkinn vegna sérstakrar hæfni, árangurs og álags í starfi og styrkurinn teldist því viðbótarlaun. Samningur um námsstyrk flokkaðist þannig ekki sem föst launakjör og því ekki skylt að veita upplýsingar um þau.

Arnar Þór sagði raunar að Seðlabankinn liti einkum á málið sem tækifæri til að skýra þessa 7. grein upplýsingalaga. Sjaldgæft væri að stjórnvöld sæktu mál af þessu tagi og dómaflóran þannig af skornum skammti.

 

Hlógu að því að þeir fengju ekki að sjá skjalið

Úrskurðurinn væri jafnframt hámark „kollvörpunar“ miðað við fyrri úrskurði nefndarinnar og hefði fært hana „út af sporinu“.

Þá vísaði Arnar Þór einnig til þess að um Seðlabankann giltu sérlög, þ.e. þagnarskylduákvæði í upplýsingalögum, sem gangi framar 7. greininni. Bankinn hefði litið svo á að upplýsingar um námsstyrkinn væru nógu persónulegar Ingibjörgu til að málið félli undir þagnarskyldu.

Sjá einnig: „Ég er bara að reyna að vinna mína vinnu“

Dómari spurði í kjölfarið hvort komið hefði til greina að afhenda Ara hluta skjalsins. Arnar Þór kvað svo ekki vera, litið væri svo á að um væri að ræða heildstætt skjal.

„En nú skapast sérstök staða af því að gagnaðili hefur ekki séð skjalið,“ sagði Arnar Þór og uppskar þá hlátur frá Einari Þór Sverrissyni, lögmanni Ara, og Ara sjálfum. Ætla má að sá hlátur hafi verið þrunginn nokkurri kaldhæðni, ef marka má málflutning Einars sem nú verður vikið að.

 

„Varðhundur almennings“ dreginn fyrir dóm

Einar sagði að Seðlabankinn hefði gert allt sem í hans valdi stæði til að koma í veg fyrir birtingu umræddra gagna. Þannig hefði bankinn ákveðið að draga blaðamanninn Ara, „varðhund almennings“, fyrir dóm til að tryggja að kjör starfsmanns bankans yrðu „sveipuð leyndarhjúp“.

Þá taldi Einar að námsstyrkur Ingibjargar félli tvímælalaust undir launakjör eins af æðstu stjórnendum bankans. Um væri að ræða dýrt háskólanám sem tengdist vinnu yfir fjögurra ára tímabil. Bankanum bæri að veita umbeðnar upplýsingar um styrkinn, almenningur hefði rétt á því.

„Um hvað er samningurinn? Ég veit það ekki,“ sagði Einar. Miðað við lýsingu bankans sjálfs á samningnum og aðdraganda hans félli hann undir launakjörin.

Már Guðmundsson var Seðlabankastjóri þegar gerður var starfslokasamningur við Ingibjörgu.Vísir/Vilhelm
Máli sínu til stuðnings velti Einar því upp hvort sami leyndarhjúpur hefði ríkt ef Seðlabankinn hefði ákveðið við starfslok Ingibjargar að hún fengi „eina gullstöng úr kistunni“ eða bíl. Einar efaðist um það. 

Velti fyrir sér tilgangi leyndarhjúpsins

Einar sagði að úrskurður nefndarinnar væri jafnframt ekki í ósamræmi við fyrri úrskurði. Þá væri einblínt á umrædda 1. málsgrein 7. greinar upplýsingalaga vegna þess að andmæli bankans einblína einnig á hana en ekki 2. málsgrein.

Þá hafnaði Einar því að upplýsingarnar um námsstyrkinn falli undir þagnarskylduákvæðið. Hann gagnrýndi jafnframt að bankinn berði sér nú á brjóst fyrir að gera ekki kröfu um málskostnað frá Ara.

„En ekkert hefur komið fram um að borga málskostnað stefnda.“

Hér væri einnig verið að fjalla um stjórnarskrárvarinn rétt Ara til að fá skjalið í hendurnar. Einnig væri þess virði að velta því upp hvort samningurinn hefði verið gefinn upp til skatts og gengið frá honum samkvæmt reglum.

„Er verið að setja þetta undir leyndarhjúp í einhverjum slíkum tilgangi?“ spurði Einar.

„Hann [Seðlabankinn] er að vernda einhverja mjög undarlega hagsmuni sem maður einfaldlega áttar sig ekki á.“


Tengdar fréttir

Mál Seðlabanka fær flýtimeðferð

Dómari hefur fallist á beiðni Seðlabanka Íslands um flýtimeðferð á máli bankans gegn Ara Brynjólfssyni, blaðamanni á Fréttablaðinu.

Fordæma stefnu Seðlabankans á hendur blaðamanni

Seðlabanki Íslands hefur stefnt blaðamanni Fréttablaðsins vegna fyrirspurnar hans um innri mál bankans. Blaðamannafélag Íslands segir vinnubrögð Seðlabankans bera keim af leyndarhyggju og kúgunartilburðum. Úrskurðarnefnd upplýsingamála hefur kveðið á um að bankanum beri að afhenda gögnin sem um ræðir.

Mál Ara flutt í héraði í dag

Í dag fer fram munnlegur málflutningur í máli Seðlabanka Íslands gegn Ara Brynjólfssyni, blaðamanni Fréttablaðsins, í Héraðsdómi Reykjaness.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×