Íslenski boltinn

Óskar: Tek þessari áskorun með útbreiddan faðminn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Óskar Hrafn Þorvaldsson var í dag ráðinn nýr þjálfari Breiðabliks í Pepsi Max-deild karla en undanfarin tvö ár hefur hann þjálfað Gróttu.

Undir stjórn Óskars fór Grótta upp um tvær deildir en hann ákvað að skipta um vettvang og er tekinn við liði Breiðabliks.

Óskar segir að það sé erfitt að fara af Nesinu þar sem hann náði mögnuðum árangri.

„Það er mjög erfitt. Þetta eru yndislegir ungir menn sem eru nánast eins og synir manns. Það er frábært fólk sem hefur lagt sál og hjarta í Gróttu að búa til umgjörð sem hjálpaði til að búa til þetta skemmtilega ævintýri á Nesinu,“ sagði Óskar.

„Að ég fari á þessum tímapunkti á líka að vera tækifæri fyrir þá að stíga upp og læra af nýjum mönnum og halda áfram á þeirri þroskabraut sem þeir hafa verið á síðustu tvö ár.“

Breiðablik hefur síðustu tvö sumur lent í 2. sæti Pepsi Max-deildarinnar

„Það er mjög spennandi. Breiðablik er framúrskarandi öflugt félag og eitt það flottasta á landinu. Þeir eru með frábæran leikmannahóp, frábæra aðstöðu og mikið og sterkt starf í félaginu.“

„Þetta er eitt af betri liðum deildarinnar og það er klárlega gerð krafa um það að vera í toppbaráttu. Ég tek þeirri áskorun. Það er heiður að fá þetta tækifæri og tek þessari áskorun með útbreiddan faðminn.“

„Eins og ég sagði áðan er Breiðablik lið sem er þekkt fyrir að spila á sínum ungu leikmönnum. Lið sem er þekkt fyrir að vera í toppbaráttu og það er alveg klárt að ég, eins og aðrir þjálfarar í sama starfi, búi við þá kröfu að Breiðablik sé í toppbaráttu og spili fótbolta sem er gaman að horfa á.“

Viðtalið í heild má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×