Erlent

Fá að opna gröf Dillingers vegna „svikara“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
John Dillinger var skotinn til bana í Chicago árið 1934.
John Dillinger var skotinn til bana í Chicago árið 1934. Vísir/getty
Ættingjar bandaríska glæpamannsins John Dillingers hafa fengið leyfi til að opna gröf hans í Indiana. Ættingjarnir halda því fram að svikari hafi verið jarðsettur á sínum tíma í stað Dillingers.

Dillinger er einn alræmdasti glæpamaður Bandaríkjanna. Útsendarar Bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) skutu hann til bana í Chicago árið 1934. Hann var síðar jarðaður í Crown Hill-kirkjugarðinum í Indianapolis, höfuðborg Indiana-ríkis.

Ættingjar Dillingers, þar á meðal frændi hans Michael Thompson, telja að alríkislögreglan hafi myrt rangan mann. Þeir segjast getað sannað það með augnlit og fingraförum „svikarans“ sem hvílir nú í gröf Dillingers.

FBI hafnar þessum fullyrðingum og segir þær samsæriskenningar. Í tísti FBI frá því í ágúst kemur auk þess fram að alríkislögreglan hafi yfirgripsmiklar sannanir fyrir því að maðurinn í gröf Dillingers sé Dillinger sjálfur.

Áætlað er að ráðist verði í uppgröft líkamsleifanna á gamlársdag, 31. desember næstkomandi. Kirkjugarðurinn hefur þó sett sig upp á móti ákvörðun stjórnvalda um að gefa út leyfið.

Dillinger leiddi umfangsmikla glæpastarfsemi undir merkjum Dillinger-gengisins í Kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Hann flúði tvisvar úr fangelsi og var tíður gestur á síðum dagblaðanna.  

Kvikmyndin Public Enemies með Johnny Depp í hlutverki Dillingers tekur fjallar um síðustu æviár glæpaforingjans. Stiklu myndarinnar má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×