Erlent

Skólastofan hrundi í fyrstu kennslustund

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá vettvangi í morgun.
Frá vettvangi í morgun. Skjáskot
Hið minnsta sjö börn eru talin hafa látist eftir að skólabygging í Naíróbí, höfuðborg Kenía, hrundi í morgun. Að sögn breska ríkisútvarpsins voru aðeins örfáar mínutur liðnar af fyrstu kennslustund dagsins þegar viðarbyggingin sem hýsti skólann Precious Talent Top School féll saman.

Fregnirnar sem berast þaðan bera með sér að tugir barna gætu verið fastir í rústum byggingarinnar. Unnið er að björgun þeirra og er fjöldi slökkviliðis-, sjúkraflutninga- og björgunarsveitarmanna á vettvangi þessa stundina. Nú þegar er búið að flytja á sjötta tug barna á sjúkrahús til aðhlynningar.

Viðbragðsaðilar eru þó sagðir eiga í vandræðum með að athafna sig vegna þess mikla fjölda fólks sem safnast hefur saman við rústir og skólans og boðið fram aðstoð sína.

Moses Wainaina, sem sagður er vera eigandi skólans, lýsir atburðarás morgunsins sem óhappi. Sökin liggi hjá borgaryfirvöldum í Naíróbí sem hafi nýlega ráðist í lagnaframkvæmdir í bakgarði skólans. Það hafi orðið til þess að veikja undirstöður hans, með fyrrnefndum afleiðingum.

Foreldrar barna söfnuðust saman við skólann í morgun og óskuðu útskýringa frá ráðamönnum. Þeir segjast áður hafa kvartað undan ástandi skólabyggingarinnar, án þess að nokkuð hafi verið gert. Hér að neðan má sjá myndband sem héraðsmiðillinn Daily Nation hefur tekið saman um slysið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×