Erlent

Orsakir og afleiðingar loftslagsbreytinga koma hraðar fram

Kjartan Kjartansson skrifar
Drengur við Meghna-fljótið í Bangladess. Bráðabirgðaskýli eins og þetta voru sett upp fyrir fólk sem missti heimili sín vegna landrofs. Bangladess er eitt láglendasta ríki heims og stendur frammi fyrir miklum erfiðleikum vegna hækkandi sjávarmáls.
Drengur við Meghna-fljótið í Bangladess. Bráðabirgðaskýli eins og þetta voru sett upp fyrir fólk sem missti heimili sín vegna landrofs. Bangladess er eitt láglendasta ríki heims og stendur frammi fyrir miklum erfiðleikum vegna hækkandi sjávarmáls. Vísir/Getty
Loftslagsbreytingar hafa komið hraðar fram undanfarin fimm ár en áður á sama tíma og losun á gróðurhúsalofttegundum hefur aukist um fimmtung. Í nýrri skýrslu alþjóðlegra vísindastofnana kemur fram undanfarin fimm ár verði þau hlýjustu frá því að mælingar hófust og að styrkur gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar hafi aldrei mælst meiri.Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) um hnattrænar loftslagsbreytingar á árunum 2015 til 2019 sem er birt í aðdraganda loftslagsráðstefnu Antonio Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, í vikunni.Afleiðingar loftslagsbreytinga af völdum manna eins og hækkun yfirborðs sjávar, bráðnun íss og veðuröfgar hafa allar færst í aukana á tímabilinu. Hnattræn hlýnun nemur nú um 1,1°C frá upphafi iðnbyltingarinnar og 0,2°C miðað við tímabili 2011 til 2015.Skýrsla WMO er hluti af stærri samantekt alþjóðlegra vísindastofnana um ástand loftslags jarðar, viðbrögð manna við því til þessa og spár um breytingar á loftslaginu í framtíðinni. Þar er lögð áhersla á að brýnt sér að ráðast í róttækar loftslagsaðgerðir til að takmarka mögulega óafturkræfar áhrif loftslagsbreytinga.

Þykkur reykur stígur upp frá skógar- og kjarreldum í Alaska í júlí. Eldar loguðu víða um norðurslóðir í sumar en þeir verða tíðari með hlýnandi loftslagi.Vísir/Getty

Tryggt að hlýnun heldur áfram í áratugi

Losun heimsbyggðarinnar á koltvísýringi og öðrum gróðurhúsalofttegundum hefur haldið áfram að aukast undanfarin fimm ár. Aukningin er um fimmtungi meiri nú en hún var á fimm ára tímabilinu á undan.Magn gróðurhúsalofttegunda sem menn hafa þegar losað út í lofthjúp jarðar tryggir á hnattræn hlýnun á eftir að halda áfram um áratugaskeið, jafnvel þó að allri losun yrði hætt samstundis. Útlit er fyrir að styrkur koltvísýrings í lofthjúpnum nái eða verði meiri en 410 hlutar af milljón fyrir lok ársins. Styrkurinn hefur aldrei mælst hærri í sögu mannkynsins.Petteri Taalas, yfirmaður WMO, segir í tilkynningu að þrefalda þurfi umfang aðgerða til að hægt verði að ná markmiði Parísarsamkomulagsins um að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C. Fimmfalda þurfi metnaðinn til að ná 1,5°C-markmiðinu sem láglend Kyrrahafsríki komu inn í samkomulagið.„Það er gríðarlega mikilvægt að við drögum úr losun gróðurhúsalofttegunda, sérstaklega frá orkuframleiðslu, iðnaði og samgöngum. Þetta er nauðsynlegt ef við ætlum að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og ná markmiðum Parísarsamkomulagsins,“ segir Taalas.

Eftirleikur fellibylsins Harvey sem gekk yfir Texas árið 2017. Loftslagsbreytingar auka áhrif fellibylja. Hlýrra loft þýðir að loftið heldur meiri raka og hærri sjávarstaða þýðir verri sjávarflóð.Vísir/Getty

Hækkun sjávarmáls og bráðnun íss

Yfirborð sjávar hefur hækkað um fimm millímetra á ári að meðaltali frá 2014 til 2019. Það er millímetra meira en á árunum 2007 til 2016. Hækkunin nú er umtalsvert hraðari en meðaltalið frá 1993 sem hefur verið 3,2 millímetrar á ári.Bráðnun íss á landi er nú sögð leika stærra hlutverk í hækkun yfirborðs sjávar en áður og hafi nú meira vægi en útþensla hafsins vegna hlýnunar.Á tímabilinu hefur lágmarksútbreiðsla hafíss á norðurskautinu að sumri dregist sama og var hún vel undir meðaltali áranna 1981 til 2010. Þá mældist meðalútbreiðsla hafíssins að vetri fjórum sinnum sú minnsta í mælingarsögunni á tímabilinu. Fjölær ís er sagður nær algerlega horfinn.Á suðurskautinu, þar sem aðstæður eru nokkuð aðrar en á norðurskautinu, hefur lágmarksútbreiðsla hafíss að sumri og hámarksútbreiðsla að vetri verið vel undir meðatali áranna 1981 til 2010 frá árinu 2016, andstætt við fimm ára tímabilið frá 2011 til 2015.Árlegt ístap á Suðurskautslandinu hefur sexfaldast úr fjörutíu milljörðum tonna á ári frá 1979 til 2000 í 252 milljarða tonna á ári frá 2009 til 2017. Á Grænlandi hefur bráðnun íss einnig orðið umtalsvert hraðari frá aldamótum.

Jakobshafnarjökullinn á Vestur-Grænlandi. Grænlandsjökull tapar nú ís hratt sem hækkar yfirborð sjávar.Vísir/EPA

Súrnun og hlýnun sjávar

Höf jarðar leika lykilhlutverk í loftslagi hennar. Þau hafa tekið upp meira en 90% þess umframhita sem hefur orðið til vegna aukinna gróðurhúsalofttegunda af völdum manna. Hiti í efstu 700 metrum hafsins hefur aldrei mælst hærri en í fyrra. Næstmestur var hitinn árið 2017 og þriðji mestur árið 2015.Á sama tíma hafa höfin tekið upp um 30% þess koltvísýrings sem menn hafa losað og þannig komið í veg fyrir enn meiri hlýnun. Það hefur aftur á móti valdið því að höfin hafa súrnað um 26% frá upphafi iðnbyltingarinnar. Súrnun sjávar hefur veruleg áhrif á vistkerfi hafsins, þar á meðal kórala og aðrar kalkmyndandi lífverur. Hlýnun sjávar ágerir þau áhrif enn frekar.

Íbúar í Chennai á Indlandi bíða eftir vatni sem var flutt þangað með flutningabíl í langvarandi þurrki júlí. Hitabylgjur og þurrkar hafa sett ýmis konar álag á borgir, meðal annars vatnsból þeirra.Vísir/Getty

Veðuröfgar

Hitabylgjur voru mannskæðustu veðurhamfarirnar á tímabilinu 2015 til 2019 og höfðu áhrif á öllum heimsálfum jarðar. Fjöldi hitameta var sleginn í þeim. Nær allar rannsóknir á miklum hitabylgjum frá árinu 2015 hafa fundið merki um áhrif hnattrænnar hlýnunar á þær.Mesta efnahagslega tjónið var af völdum hitabeltisfellibylja. Fellibyljatímabilið í Atlantshafi árið 2017 var eitt það versta sem sögur fara af. Þannig hljóp af völdum fellibylsins Harvey sem gekk yfir Texas um 125 milljörðum dollara. Tveir fellibylir úr Indlandshafi gengu yfir Mósambík í mars og apríl á þessu ári með alvarlegum afleiðingum.Skógar- og kjarreldar tengjast þurrkum. Þrjú stærstu efnahagslegu tjónin af völdum slíkra elda hafa orðið undanfarin fjögur ár.Eldarnir valda þar að auki enn frekari loftslagsbreytingum því mikið magn koltvísýrings losnar þegar skógar, kjarr og jarðvegur brennur. Áætlað er að um fimmtíu milljón tonn koltvísýrings hafi losnað út í andrúmsloftið í fordæmalausum kjarreldum á norðurslóðum í júní. Það er sagt meira en losnaði frá eldum á norðurslóðum í júnímánuði frá 2010 til 2018 samanlagt.Vísað er í Fréttablað Veðurfræðifélags Bandaríkjanna um að 62 af 77 ofsaveðuratburðum frá 2015 til 2017 hafi borið skýr merki um áhrif loftslagsbreytinga af völdum manna. Fyrir utan að allar meiriháttar hitabylgjur hafa vísindamenn tengt öfgakennda úrkomu við athafnir manna.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.