Erlent

Hæsti­réttur Spánar dæmir að líkams­­­leifar Franco skuli grafnar upp

Atli Ísleifsson skrifar
Líkamsleifar Franco hafa hvílt í Dal hinna föllnu, norður af Madríd.
Líkamsleifar Franco hafa hvílt í Dal hinna föllnu, norður af Madríd. Getty
Hæstiréttur Spánar hefur dæmt að líkamsleifar herforingjans Franco, fyrrverandi einræðisherra Spánar, skuli grafnar upp. BBC segir frá þessu, en dómurinn féll í morgun.

Úrskurðurinn styður við áform vinstri stjórnar landsins um að flytja líkamsleifar Franco úr ríkisfjármögnuðu grafhýsi í Dal hinna föllnu (Valle de los Caídos), skammt frá höfuðborginni Madríd, og á annan stað, Mingorrubio El Pardo-ríkisgrafreitnum, þar sem eiginkona Franco hvílir.

Hæstiréttur Spánar hafnaði með þessu áfrýjun fjölskyldu Franco sem var andsnúin fyrirhuguðum flutningi.

Franco stýrði Spáni á árunum 1936 til 1975.Getty

Líkamsleifar 33 þúsund manna

Stjórn Sósíalista hefur lagt mikla áherslu á flutning líkamsleifanna og er það liður í áætlun þeirra að gera Dal hinna föllnu að stað þar sem hægt er að minnast og fræðast um spænsku borgarastyrjöldina. Ekki að stað þar sem hægt verði að upphefja hershöfðingjann og einræðisherrann Franco.

Áætlað er að um jarðneskar leifar 33 þúsund manna hvíli í Dal hinna föllnu. Þúsundir féllu í baráttu sinni gegn hersveitum Franco á fjórða áratug síðustu aldar og var líkum þeirra komið fyrir í Dal hinna föllnu án samþykkis aðstandenda. Aðstandendur fallinna hafa lengi barist fyrir því að fá líkamsleifar ættingja sinna fluttar þaðan.

Fasistar og skoðanabræður Franco hafa lengi flykkst í Dal hinna föllnu á dánardegi einræðisherrans, 20. nóvember, á hverju ári. Það var Franco sjálfur sem opnaði minnisverðann í Dal hinna föllnu árið 1959. Hann stýrði Spáni á árunum 1936 til 1975.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×