Erlent

Sagði að besta leiðin til að heiðra minningu látinnar þingkonu væri að „klára Brexit“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands sést hér til vinstri á mynd. Mynd af Jo Cox þingkonu Verkamannaflokksins, sem var myrt árið 2016, sést til hægri.
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands sést hér til vinstri á mynd. Mynd af Jo Cox þingkonu Verkamannaflokksins, sem var myrt árið 2016, sést til hægri. Mynd/Samsett
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands segir að besta leiðin til að heiðra minningu þingkonunnar Jo Cox, sem myrt var árið 2016, sé að sigla Brexit í höfn. Þetta kom fram í máli Johnsons þegar hann kom fyrir neðri deild breska þingsins í kvöld.

Breska þingið kom saman í fyrsta skipti í dag eftir að hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í gær að ákvörðun Johnson-stjórnarinnar um að fresta þingfundum þann 9. september síðastliðin hafi verið ólögmæt.

Johnson ávarpaði jafnframt þingið í fyrsta sinn í kvöld eftir úrskurð hæstaréttar. Hann var ítrekað gagnrýndur fyrir orðalag sem hann hefur haft uppi í tengslum við Brexit. Þannig beindi Tracey Brabin, þingkona breska Verkamannaflokksins, því til Johnsons að með orðalagi sínu ýjaði hann að því að andstæðingar hans væru „föðurlandssvikarar“ vegna þess að þeir væru ekki sammála honum.

Brabin hvatti Johnson til að gæta orða sinna og nefndi í því samhengi morðið á áðurnefndri Jo Cox, þingkonu Verkamannaflokksins, sem myrt var þann 16. júní 2016, viku áður en atkvæðagreiðsla um Brexit fór fram.

Johnson svaraði Brabin um hæl. „Besta leiðin til að heiðra minningu Jo Cox og, raunar, besta leiðin til að sameina þjóðina væri, að ég held, að klára Brexit.“

Hér að neðan má sjá myndband Sky News af orðaskiptunum.

Cox barðist fyrir því á sínum tíma að Bretland yrði áfram aðildarríki að Evrópusambandinu. Þá var haft eftir vitnum að árásinni að skömmu áður en árásarmaðurinn hafi látið til skarar skríða hafi hann öskrað: „Bretland fyrst!“.

Brendan Cox, ekkill Jo Cox, lýsti yfir óánægju með tíst forsætisráðherrann í tísti sem sá fyrrnefndi birti í kvöld.

„Er hálfóglatt yfir því að nafn Jo skuli vera notað á þennan hátt. Það besta sem við (sama hvar við stöndum í stjórnmálum) getum gert er að verja gildi okkar af ástríðu og staðfestu. En aldrei að skrímslavæða andstæðingana og ríghalda í það sem við eigum sameiginlegt.“

Þá hafa andstæðingar Johnsons keppst við að gagnrýna ummælin á samfélagsmiðlum, þar á meðal þingkonurnar Jess Philips og Jo Swinson, auk Nicolu Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands.

Johnson stefnir á útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu þann 31. október næstkomandi. Ef þingið samþykkir ekki útgöngusamning í síðasta lagi 19. október, og heimilar ekki samningslausa útgöngu, mun Johnson þurfa að biðja Evrópusambandið um frest. Ljóst er að Johnson vill komast hjá því og hefur hann sagst ekki ætla að biðja um frest.


Tengdar fréttir

Fagna lífi þingkonunnar Jo Cox

Ár er liðið frá því breska þingkonan Jo Cox var myrt. Fjölskylda hennar og vinir hvetja fólk til þess að standa að viðburðum alla helgina í þeim tilgangi að fagna lífi móðurinnar og þingkonu breska Verkamannaflokksins Jo Cox.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.